Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gagnrýndu ráðherra og greindu frá óánægju sérfræðinga

05.05.2021 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þingmenn ræddu seinagang við gerð skýrslu um flutning á skimunum fyrir leghálskrabbameini á Alþingi í dag. Heilsugæslan tók við leghálsskimunum um áramót og ákveðið var að senda sýnin til Danmerkur til veiru- og frumugreiningar, sem var ekki óumdeilt.

Heilbrigðisráðherra var í mars falið að vinna skýrslu um hvernig staðið var að flutningi skimana fyrir leghálskrabbameini til Danmerkur. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, vakti athygli á því í dag að samkvæmt þingsköpum ætti skýrslan að vera kynnt í þinginu í næstu viku.

„Það er nokkuð ljóst að svo er ekki. Enginn þingflokkur kannast við það að hafa heyrt frá heilbrigðisráðherra um þessa vinnu og það sem í vændum er og í morgun kom fram á fundi velferðarnefndar að enginn þeirra sérfræðinga í málaflokknum kannast heldur við það að hafa fengið einhverjar upplýsingar eða meldingar um að þessi vinna væri að fara af stað af hálfu ráðherrans,“ sagði Þorbjörg.

Sérfræðingar ósáttir og ekki með í samráði

Anna Kolbrún Árnadóttir, fulltrúi Miðflokksins í Velferðarnefnd, greindi frá ósætti sérfræðinga vegna málsins.

„Við fengum gesti fyrir velferðarnefnd í morgun, sérfræðinga sem eru alls ekki sáttir við hvernig var farið af stað. Það var ekki haft samráð við þá. Þeir hafa ekki aðgang að niðurstöðum rannsókna í Danmörku. Þeir geta ekki hringt í vin. Þeir geta ekki hringdi kollega, þeir vita ekki neitt. Við verðum að gera betur,“ sagði Anna Kolbrún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV samsett
Anna Kolbrún Árnadóttir og Helga Vala Helgadóttir.

Helga Vala Helgadóttir, formaður Velferðarnefndar, tók undir áhyggjurnar.

„Það eru þúsundir kvenna úti í samfélaginu sem fá engin svör sem eru búnar að fara í sýnatöku. Það eru læknar úti í samfélaginu sem fá heldur ekki svör, niðurstöður sem eru jafnvel komnar.  Þetta snýr að heilsu kvenna en þetta snýr líka að hagsmunum fjölskyldna allra þessara þúsunda kvenna sem lifa í algjörri óvissu um heilsufar sitt og það er óboðlegt og við verðum að fara að fá þessa skýrslu,“ sagði Helga Vala.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV samsett
Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir.

Bjarni kom Svandísi til varnar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, blandaði sér svo í umræðuna og kom heilbrigðisráðherra til varnar.

„Hvers vegna getur Alþingi ekki sjálft tekið ákvörðun um hér á nefndasviði að fela einhverjum þriðja óháða aðila og skoða einstök mál og ekki vera að blanda ráðherra í slíkt?“ sagði Bjarni Benediktsson.