Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fyrstu 100 dagar Bidens

Joe Biden. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Stjórnmálaskýrendur telja flestir að allt annar bragur hafi verið á fyrstu mánuðum stjórnartíðar Joe Bidens en Donalds Trumps fyrir fjórum árum. Gengið hafi verið skipulega til verka, stjórnin í Washington sé skipuð reyndu og hæfu fólki og stefnan sé skýr. Fjármálasérfræðingurinn Steve Rattner líkir fyrstu 100 dögum Bidens við forsetatíð Roosevelts og segir að Biden hafi gefið út fleiri forsetatilskipanir en nokkur annar síðan Franklin Delano Roosevelt var forseti.

Mikilvægasti tími hverrar embættistíðar

Eitt hundrað dagar voru í síðustu viku frá því að Joe Biden tók við embætti Bandaríkjaforseta. Stjórnmálaskýrendur segja gjarna að þessir fyrstu mánuðir séu mikilvægasti tími hverrar embættistíðar. Flestir eru á því að nýja stjórnin hafi gengið til verka af röggsemi. Breska tímaritið The Economist tekur undir samlíkinguna við Roosevelt.

Af hverju skipta 100 dagar svona miklu máli?

Af hverju skipta fyrstu 100 dagarnir svona miklu og af hverju 100 dagar, en ekki þrír mánuðir eða 12 vikur? Sumir rekja það aftur til öndverðrar nítjándu aldar að tala um 100 daga, það hafi einmitt verið dagafjöldinn sem leið frá því að Napóleón Frakkakeisari yfirgaf útlegð sína á Elbu og tók aftur völdin þangað til hann beið endanlegan ósigur í orrustunni við Waterloo í Belgíu.

Byrjaði í forsetatíð Roosevelts

Í bandarískum stjórnmálum verða þessir hundrað dagar fyrst umtalaðir í upphafi forsetatíðar Franklins Roosevelts árið 1933 þegar fjöldi laga var samþykktur til að takast á við kreppuna miklu. Sigríður Rut Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður, stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum og fylgist gjörla með stjórnmálum vestra. Hún segir að mikill munur sé frá forsetatíð Donalds Trumps. Hver einasti dagur í tíð Trumps hafi verið eins og hvirfilbylur með skandölum og twitter-stríðum. Það sé eins og ferskur andblær að vera kominn með venjulegan mann í embættið.

100 dagar björgunar- og endurnýjunar

Sjálfur sagði Joe Biden í ræðu í þinginu í vikunni að þetta hefðu verið eitt hundrað dagar björgunar- og endurnýjunarstarfa, hann teldi Bandaríkin reiðubúin til að lyfta sér flugs.

Við erum aftur í vinnu, dreymir drauma, uppgötvum hluti og erum í forystu í heiminum á ný. Við höfum sýnt hvert öðru og heiminum að það er engin uppgjöf í Ameríku, engin.
 

Háleit markmið

Silja Bára Ómarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands sagði í erindi á ráðstefnu Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins um fyrstu 100 daga Bidens að hann hefði komið inn á miklum umbrotatímum. Hann hefði haft háleit markmið meðal annars að skipa ríkisstjórn sem endurspeglaði lýðfræðilega samsetningu Bandaríkjamanna. Hann hefði ætlað að ná tökum á COVID-19 faraldrinum, endurreisa hagkerfið, breyta dóms- og réttarkerfinu og breyta um stefnu í loftslagsmálum. 

Völd og áhrif forseta mest fyrst

Upphafsmánuðirnir skipta miklu máli, vald forsetans er mest fyrst ef flokkur hans hefur meirihluta í báðum deildum þingsins eins og nú er þó að naumur sé. Þingið fer í langt frí í ágúst og þegar það kemur saman aftur eru þingmenn í Fulltrúadeildinni og hluti Öldungadeildarinnar farnir að hugsa um kosningarnar haustið 2022 - og oft gerist það að flokkur forsetans tapar í þeim kosningum sem eru á milli forsetakosninga. Það ríður því á að koma stefnumálum í gegn sem allra fyrst.

Vill sameina þjóðina

Joe Biden hefur margoft sagt að hann óski þess að sameina þjóðina eftir þá sundrungu sem einkennt hefur síðustu ár og það sem Silja Bára nefnir skautun í bandarísku samfélagi síðustu áratugi. Biden hefur sagst vilja vinna með Repúblikönum. Þeir segjast hvorki merkja þennan sáttavilja né að forsetinn vilji í raun vinna með þeim. Repúblikanar gagnrýndu ræðu forsetans í þinginu.

Tim Scott sagði Biden hafa sundrað þjóðinni enn frekar

Tim Scott, öldungadeildarþingmaður Repúblikana frá Suður-Karólínu, svaraði ræðu Bidens í þinginu og sagði að vissulega virtist forsetinn vera góður maður og ræða hans hefði verið full af góðum fyrirheitum.

Hann hefði lofað að sameina þjóðina, lækka hitastigið, stjórna í þágu allra Bandaríkjamanna, sama hvern þeir hefðu kosið en þjóðin þyrfti meira en orðin tóm, þörf væri framsækinnar stjórnunar sem sameinaði fólk, en þremur mánuðum eftir valdatökuna hefði forsetinn og flokkur hans sundrað þjóðinni enn frekar.

Repúblikanar enn undir ægivaldi Trumps

Margir stjórnmálaskýrendur telja hins vegar að Repúblikanaflokkurinn sé eins og lús á milli tveggja nagla og hófsamir þingmenn flokksins þori hreinlega ekki að láta það vitnast eða sjást að þeir vinni með forsetanum af ótta við að Donald Trump fyrrverandi forseti snúist gegn þeim og styðji andstæðinga þeirra í flokknum. Trump hefur enn afar mikil áhrif meðal kjósenda og ekki má gleyma því að 74 milljónir þeirra kusu Trump. Í þeim hópi er mikill fjöldi sem enn telur að brögð hafi verið í tafli í kosningunum í nóvember og Trump hafi verið rændur sigri.

Hafa ekki viljað samstarf

Sigríður Rut Júlíusdóttir bendir á að þingmenn Repúblikana hafi ekki viljað styðja frumvarp Bidens um björgunaraðgerðir vegna COVID-farsóttarinnar þó að það hafi notið almenns stuðnings bandarískra kjósenda. Þá fallist þeir ekki á skilgreiningu Bidens á innviðum í frumvarpi sem þingið hefur nú til meðferðar. Biden segi að aðstoð við barnafjölskyldur og umönnun aldraðra eigi að teljast til innviða.

Óttast skattahækkanir og miðstýringu

Repúblikanar segjast óttast skattahækkanir, valdasamþjöppun og ofurvald miðstýringar. Tim Scott segir fyrirætlanir forsetans þýða að Washington eigi að stýra lífi fólks.

John Kennedy, öldungadeildarþingmaður Repúblikana í Louisiana, sem er hvorki skyldur hinni frægu Kennedy-fjölskyldu frá Massachussetts blóðböndum né pólitískt, sagði að Biden hefði í ræðu sinni í þinginu getað sparað sér mikinn tíma með því að segja einfaldlega það sem hafi verið kjarninn í máli hans, ég er Biden forseti, ég vil að þið sendið frelsi ykkar og allar eigur til Washington. 

Ekki róttækur vinstrimaður

Sigríður Rut Júlíusdóttir segir að Repúblikönum gangi illa að útmála Biden sem róttækan vinstrimann sem sé í vasanum á Bernie Sanders, Elizabeth Warren og fleiri sem eru lengst til vinstri í Demókrataflokknum. Biden sé þekkt stærð, hafi verið varaforseti Baracks Obama í átta ár og þingmaður um áratuga skeið.

Kórónuveiran hefur leikið Bandaríkjamenn grátt

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Bandaríkjamenn grátt, 575 þúsund manns hafa látist og meira en 30 milljónir smitast. Farsóttin leiddi til mikils efnahagssamdráttar og er talið að um 20 milljónir manna hafi misst vinnuna. En nú hillir undir betri tíma, sagði Silja Bára Ómarsdóttir á fundi Amerísk-íslenska verslunarráðsins. Biden hefði auðveldlega náð markmiði sínu að 100 milljónir Bandaríkjamanna yrðu bólusettir á fyrstu 100 dögum valdatíðar hans.

Efnahagslífið réttir úr kútnum

Bandarískt efnahagslíf er einnig að rétta úr kútnum og spáð er miklum hagvexti eftir samdráttinn í fyrra, sagði Friðjón Friðjónsson, framkvæmdastjóri, í fyrirlestri á fundinum hjá Amerísk-íslenska verslunarráðinu. Friðjón sagði að útlitið væri bjart, augljóst væri að markaðurinn hefði trú á Biden-Harris stjórninni. Þetta væri ein besta byrjun í efnahagsmálum hjá forseta í 80 ár. Væntingar væru miklar og bólusetningar hefðu þar mikil áhrif.

Stórt hlutverk varaforseta

Margir sem lagt hafa mat á stjórnartíð Bidens til þessa nefna að Kamala Harris, varaforseti, gegni veigameira hlutverki en gengið hafi og gerst um fyrri varaforseta. Biden hefur falið henni að stjórna viðbrögðum við gífurlegum fjölda flóttamanna og farandfólks frá Mið-Ameríku sem leita nú til Bandaríkjanna, en það er óleyst vandamál sem kann að valda Biden og Harris miklum erfiðleikum.

Sleepy Joe reynist Action Man

Donald Trump hæddist oft að Joe Biden og kallaði hann Sleepy Joe, Sljóa Jóa - en þó að Biden sé mun minna áberandi en fyrirrennari hans þá hefur engin deyfð verið í stjórnartíð hans. Kannski það sé rétt sem fréttamaður BBC sagði í vikunni að Sljói Jói hefði reynst Action Man, Sleepy Joe has turned into Action Man.