Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Draga fram verðmætin í rusli bæjarins

Mynd: SDÚ / RÚV

Draga fram verðmætin í rusli bæjarins

05.05.2021 - 13:27

Höfundar

Getur gamall verðlaunabikar orðið að lampa? Er hægt að breyta úr sér gengnum gallabuxum í gólfmottu? Hönnunardúóið Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir standa að baki vörumerkinu Flétta.

Hrefna og Birta Rós hafa komið sér fyrir í iðnaðarhverfi í Kópavoginum og þegar Síðdegisútvarpið bar að garði baðaði sólskinið ótal verðlaunabikara í húsakynnum hönnunarstofunnar. Sjálfar hafa þær ekki unnið til svo margra verðlauna, en gripirnir eru hluti af verkefni sem endurspeglar stefnu þeirra í vöruhönnun: Að sjá verðmætin í því sem er alla jafna fleygt í ruslagáma eða látið safna ryki í geymslum.

Samstarf þeirra hófst í Listaháskóla Íslands þar sem þær lærðu vöruhönnun.„Við byrjuðum að líta í kringum okkur og sáum rusl og umframefni út um allt og bjuggum til verkefni sem við kölluðum Haugfé. Út frá því fórum við að vinna með Sorpu að efnismiðlun Góða hirðisins og tókum þátt í að opna hana. Við vorum búnar að vera hálfar ofan í ruslinu hjá mörgum fyrirtækjum bæjarins og fannst þetta svo áhugaverð hráefni. Okkur langaði að gera þau sýnilegri, sýna verðmætin í þeim. Það þróaðist í alls konar vörur úr alls konar umframefnum.“

Vörurnar eru sannarlega fjölbreyttar, á stofunni má sjá lampa, kertastjaka, gólfmottur og ýmislegt annað. Efniviðurinn er af ýmsu tagi.

Getur gamall verðlaunabikar orðið að lampa og er hægt að breyta úrsérgengnum gallabuxum í gólfmottu? Hönnunardúóið Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir standa að baki vörumerkinu Flétta.

„Það er oft eitthvað sem grípur okkur á einhverjum tíma og við ákveðum að safna einhverju magni að okkur og vinnum úr. Við höfum unnið mikið úr textíl, við kynntumst fatasöfnunarverkefni Rauða krossins og höfum fengið að koma í heimsókn. Þar er gríðarlegt magn af textíl, sem sumt er ekki hægt að nýta og er frekar sent úr landi til tætingar og niðurvinnslu. Okkur hefur fundist það mjög áhugavert. Síðan er það verkefnið með verðlaunagripina, það var mjög tilviljunarkennt að við ákváðum að taka þá fyrir. Við höfum aldrei unnið nein verðlaun en ólumst upp við að þetta væri í kringum okkur. Þess vegna var þetta kannski svo töfrandi hráefni.“

Gripina hafa þær fengið frá fólki sem er að tæma geymslur en megnið kemur frá íþróttafélögum, sem sum hver eru með fullar geymslur af bikurum sem hafa ekki verið sóttir og hlaðist upp.

Næst ætla þær að rannsaka möguleikana í steinull, sem liggur víða ónýtt í miklu magni eftir niðurrif eða endurbætur húsa. Að verkefninu kemur einnig Kristín Sigurðardóttir vöruhönnuður. „Við erum að erum að reyna að finna farveg fyrir notaða steinull sem annars fer í urðun.“ Úr steinullinni sé hægt að vinna svart, glerjað efni og sjá þær fyrir sér spennandi möguleika í því. „Þetta er svo áhugavert hráefni af því að þetta er íslenskt. Steinull hf. býr til steinullina úr íslenskum jarðefnum í nágrenni verksmiðjunnar.“ Verkefnið er enn á rannsóknarstigi, en þær sjá fyrir sér að hægt verði að búa til íslenskt gler úr ullinni. „Við eigum eftir að sjá hvert þetta leiðir.“