Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Chelsea mætir Man.City í úrslitum

epa09179846 Chelsea manager Thomas Tuchel (R) celebrates with Andreas Christensen after winning the UEFA Champions League semi final, second leg soccer match between Chelsea FC and Real Madrid in London, Britain, 05 May 2021.  EPA-EFE/Neil Hall
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Chelsea mætir Man.City í úrslitum

05.05.2021 - 21:51
Chelsea og Real Madrid mættust í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í Lundúnum í kvöld. Í boði var sæti í sjálfum úrslitaleik keppninnar. 

 

Mikil spenna var í einvíginu eftir 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum í Madrid í síðustu viku en Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, sneri aftur í lið sinna manna eftir meiðsli. Heimamenn byrjuðu leikinn í kvöld af krafti og Þjóðverjinn Timo Werner kom boltanum í netið á 18. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Tíu mínútum síðar sýndi Frakkinn N'golo Kante frábæra takta fyrir Chelsea og hann kom boltanum á Þjóðverjann Kai Haverts sem skaut strax að marki en boltinn hafnaði í slánni en sem betur fer fyrir heimamenn var Werner vel á verði og skallaði boltann yfir línuna af stuttu færi og staðan orðin 1-0. Þetta var fjórða mark Werners í keppninni í vetur. Senegalinn Edouard Mendy var öflugur það sem eftir lifði fyrri hálfleiks því hann varði í tvígang vel frá franska framherjanum Karim Benzema og sá til þess að staðan var ennþá 1-0 í leikhléinu.

Heimamenn hófu seinni hálfleikinn svo af krafti og eftir innan við tvær mínútur átti fyrirliðinn Cesar Azpilicueta frábæra fyrirgjöf á Havertz en góður skalli hans hafnaði í þverslánni og gestirnir sluppu með skrekkinn. Stuttu síðar komst Mason Mount einn í gegn eftir laglegan samleik Chelsea manna en skot hans fór naumlega yfir markið. 

Havertz var mjög áberandi í leiknum á Brúnni í kvöld og hann fékk dauðafæri þegar um hálftími var eftir af leiknum en Belginn Thibaut Courtouis, fyrrverandi leikmaður Chelsea, varði vel í marki Madridinga. Fimm mínútum síðar fór Werner á fleygiferð fram völlinn og renndi boltanum á Kante en aftur varði Courtoius og enn eitt færið í súginn hjá Chelsea. Það var svo á 85. mínútu sem Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic gerði vel inn í teig gestanna og hann renndi boltanum á Mason Mount sem tryggði 2-0 sigur Chelsea og leið sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í þriðja skipti í sögu Lundúnarliðsins og í fyrsta skipti frá því að liðið vann keppnina 2012. Það verða því tvö ensk lið sem mætast í úrslitaleiknum í Istanbúl 29. maí því Manchester City tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á PSG í gær.