Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bólusetning kennara kærkomin eftir erfiðan vetur

Mynd: RÚV / RÚV
Kennarar eru í hópi þeirra sem fá bóluefni Janssen fyrstir allra hér á landi. Byrjað var að gefa bóluefnið í Laugardalshöll í Reykjavík í morgun. Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að gangi að óskum verði búið að bólusetja stóran hluta kennara fljótlega eftir helgi.

„Þeim sem ekki hafa verið í öðrum forgangshópum, til dæmis vegna undirliggjandi sjúkdóma. Þá er verið að bólusetja núna gríðarlegan fjölda kennara í dag og næstu daga og fram yfir helgi. Ef allt gengur að óskum þá bendir allt til þess að búið verði að bólusetja massann upp úr helginni,“ sagði Ragnar Þór á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Hann segir að vegna bólusetninga raskist skólastarf eitthvað, þar sem kennarar og starfsfólk fer í stórum hópum í bólusetningu. Færra starfsfólk verður í leikskólum en í grunnskólum er forgangsröðunin þannig að yngstu bekkirnir eru mannaðir á meðan eldri börn gætu misst eitthvað úr. Svo þarf að bregðast við ef einhverjir verða slappir eftir bólusetningu, eins og þekkt er að geti gerst.

„Þá þarf bara að tækla það. Þetta er bara eitthvað sem þarf að gera til þess að komast yfir þennan hjall, taka höndum saman sem samfélag og hjálpa til. Það er ánægjulegur lokapunktur á þungum og erfiðum vetri,“ segir Ragnar Þór.

Erfitt að ætla að benda á aðra forgangshópa

Ekki sé hægt að fullyrða um að kennarar og starfsfólk skóla hefðu átt að vera framar í röðinni í bólusetningum.

„Lengst af hegðaði þessi veira sér ekki þannig að hún ætti greiða smitleið í gegnum skóla. Það var aðallega í elstu hópunum. Það var brugðist við því að grípa til aðgerða og yfirleitt harðari meðal framhaldsskólanemenda heldur en yngri nemenda. Það gekk upp að mestu leyti. Það er mjög erfitt að ætla að benda á einhverja forgangshópa og segja að þeir hefðu átt að flytjast neðar,“ segir Ragnar.

Stökkbreytt afbrigði veirunnar sem virðast leggjast meira á börn hefur hins vegar valdið fleiri smitum innan skólakerfisins.

„Það hefur auðvitað farið um okkur síðustu vikur þegar við höfum séð að þessi nýju afbrigði veirunnar dreifast með þessum hætti í skólum,“ segir Ragnar.

Hann trúi því að svo lengi sem sóttvarnayfirvöld geti beitt aðgerðum sem líklegastar eru til að hefta útbreiðslu veirunnar, skapist svigrúm á öðrum sviðum. Íslendingar virðist þannig vera með betri tök á faraldrinum en aðrar þjóðir.

Leikskóli ómögulegur með tveggja metra reglu

Ragnar fer yfir hvernig samkomutakmarkanir hafa haft áhrif á skólastarf, en erfitt er að gera það eins og annars staðar í samfélaginu.

„Þú heldur ekki úti leikskólastarfi með tveggja metra reglu og grímum, ekki frekar en þú gerir það á heimilinu. Þess vegna hefur þetta snúist að miklu leyti um það að hólfa niður og aðgreina. Það hefur reynt töluvert á.“ Hann bendir á að húsnæði skóla sé oft illa til þess fallið að hólfa niður.

Nauðsynlegt væri að læra af reynslunni eftir þessa vinnu til þess að hægt væri að byggja skólastarfið áfram upp hér á landi. Hann fagni því að óvíða hafi áhrif COVID á skólastarf verið rannsakað betur en hér, og fróðlegt verði að sjá hvað komi upp úr því. 

Hann ítrekar jafnframt að það megi ekki sofna á verðinum þrátt fyrir að nú megi sjá til sólar. Það væri áfall að þurfa að hrökkva aftur til baka ef ekki er farið varlega.