Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Veit ekki hvað verður um kórastarf í Hallgrímskirkju

Mynd: Listvinafélag Hallgrímskirkju / Listvinafélag Hallgrímskirkju

Veit ekki hvað verður um kórastarf í Hallgrímskirkju

04.05.2021 - 12:16

Höfundar

„Það hefur ekki verið nægilegt samtal á milli aðila,“ segir Hörður Áskelsson, kantor og organisti í Hallgrímskirkju, sem hverfur nú frá kirkjunni eftir nær fjörutíu ára starf vegna deilna á milli hans og sóknarnefndar kirkjunnar. Mótettukórinn fylgir kantornum úr kirkjunni og stendur meðal annars til að halda tónleika í Hörpu fyrsta sunnudag í aðventu, 28. nóvember, þar sem kórinn flytur jólaóratoriuna.

Um helgina bárust fregnir af starfslokum Harðar Áskelssonar, kantors Hallgrímskirkju, í kjölfar deilna sóknarnefndar kirkjunnar og Harðar. Samstarfi hefur einnig verið slitið við Listvinafélag Hallgrímskirkju sem starfrækt hefur verið þar á undanförnum áratugum.

Hörður hefur verið í forystusveit sönglífs í landinu í gegnum þetta starf. Hann stofnaði Mótettukór Hallgrímkirkju 1982 og síðar kammerkórinn Schola cantorum sem einnig hefur komið fram í kirkjunni. Rætt var við Hörð í Víðsjá á Rás 1 um tónlistarflutninginn í Hallgrímskirkju og fortíð hans og framtíð.

Gestir hrósa skipulagi og umgjörð og vilja allir koma aftur

„Ég hef langa reynslu af þessu húsi, frá því það var vígt, og framan af var dálítið umdeilt hvort hljómburðurinn væri góður eða vondur,“ segir Hörður um Hallgrímskirkju. Flestum hafi þó orðið ljóst að kirkjan væri ákjósanlegt rými fyrir flestar tegundir kirkjutónlistar sé haldið rétt á málum. Þar hefur skapast vettvangur fyrir blómlegt tónlistarlíf sem hefur þróast síðustu fjörutíu ár við það sem Hörður kallar „hinn mikla þjóðarhelgidóm.“

„Menn eru sammála um að þetta sé frábært hús og að okkur hafi tekist að sanna það með flutningi mjög ólíkra verka frá ólíkum tímabilum.“ Þar hefur verið mikið orgeltónleikahald og fengnir gestir hingað til lands víða að úr heiminum til að sinna því.

Hörður segir að þeir hafi allir rómað aðstæðurnar í Hallgrímskirkju, ekki bara hljómburðinn og orgelið, sem margir telji með bestu orgelum, heldur líka umgjörðina sem Listvinafélag Hallgrímskirkju hefur sett utan um tónleikana. „Fyrir hverja tónleika gerum við mikið úr því að hafa fallegt í kringum okkur og hafa blóm og kerti.“ Gestaorganistar hafa líka haft orð á því hvað skipulagið sé gott og hvað þeim hafi fundist þeir velkomnir á þessum stað. „Allir vilja koma aftur,“ segir Hörður.

Mikill metnaður fyrir að gera tónlist

Mótettukór Hallgrímskirkju syngur að hluta til við athafnir í kikjunni en Schola cantorum er minni kammerkór og sjálfstæðari eining. Í Mótettukórnum eru um fimmtíu til sextíu söngvarar og Hörður segir að hann henti vel fyrir óratoríuflutning sem þau hafi verið dugleg að sinna. Schola cantorum hefur sinnt nýrri tónlist í bland við renaissance. „Báðir kórarnir hafa sína styrkleika og verkefnavalið miðast svolítið við það. En í báðum hópum hefur verið mikill metnaður fyrir að gera góða tónlist og flytja þau verk sem við höfum valið okkur til flutnings eins og við getum.“

Veit ekki hvað verður um kórastarf í kirkjunni

Eins og fram kom í fréttum í gær hefur Mótettukór Hallgrímskirkju lýst yfir að hann hyggist ekki starfa áfram í kirkjunni heldur fylgja Herði Áskelssyni „hvert á land sem er.“ Hvað verður þá um kórastarf í Hallgrímskirkju? „Það er ekki hægt að segja, annað en að ég þarf og verð að klára verkefni sem ég hef gert samning um og við verðum að finna okkur góða æfingaaðstöðu.“

Hörður segist ekki átta sig á hvernig forystan í Hallgrímskirkju sjái fyrir sér framtíð hennar. „Ég veit ekki alveg hvað hún er að hugsa um þá framtíð því það hefur ekki verið nægilegt samtal á milli aðila. Það er núna spurningin, það getur vel verið að það gerist eitthvað alveg nýtt og öðru vísi.“

Hugðist endurflytja nokkur af þeim verkum sem stóðu upp úr

Hörður hafði séð fyrir sér að geta klárað fjörutíu ár og hugðist velja nokkur af þeim verkum sem staðið hafa upp úr í gegnum árin til endurflutnings áður en hann yfirgæfi kirkjuna. Augljóslega verður ekkert úr því, að minnsta kosti ekki í kirkjunni. 

Listvinafélagið hefur verið sem hjartað eða lungun

Listvinafélag Hallgrímskirkju var stofnað haustið 1982 með það að markmiði að efla listalíf í Hallgrímskirkju og hefur félagið staðið fyrir fjölmörgum listviðburðum. Nú, þegar samstarfi við það hefur einnig verið slitið, segir Hörður: „Listvinafélagið hefur verið sem hjartað, eða lungun kannski heldur, í þessari starfsemi.“

Félaginu lýsir hann sem bakhjarli fyrir starfsemi kirkjunnar. Hann segist ekki skilja hvað forysta Hallgrímskirkju taki til bragðs án þess. „Þegar það er farið og báðir kórarnir, sem hafa verið í miðpunkti fyrir flesta tónlistarviðburði utan orgeleinleiks, það er forvitnilegt að hugsa um það. Það hlýtur að vera eitthvað sem þau hafa hugsað sér en ekki látið uppi.“

Lífið í kirkjunni gerir hana að því sem hún er

Lífið í kirkjunni er það sem gerir hana að því sem hún er, segir Hörður. Hún er glæsileg og táknmynd Reykjavíkur og hefur fengið sína viðurkenningu meðal annars vegna þess hve vel tónlist hljómar þar og það hefur verið mikill þáttur í starfi kirkjunnar.

Listvinafélagið hefur staðið fyrir meira en sextíu tónleikum og orgelsumarið mikla hefur verið vel sótt. Og jafnvel þegar ekki eru tónleikar hafa gestir sem koma í kirkjuna orðið vitni að æfingum og fengið að upplifa hljómana sem óma þar inni og hlýða á orgelið.

Horfa fram á spennandi verkefni með kórunum

Hörður lítur þrátt fyrir allt björtum augum til áframhaldandi samstarfs við Mótettukórinn. Til stendur meðal annars að halda tónleika í Hörpu fyrsta sunnudag í aðventu, þann 28. nóvember, þar sem kórinn mun flytja jólaóratoríuna. „Það er gríðarlegt tilhlökkunarefni. Og við horfum fram á mörg spennandi verkefni með Schola cantorum sem búið er að skipuleggja.“

Um það hvort forysta kirkjunnar sjái fyrir sér að viðhalda Hallgrímskirkju sem tónlistarhúsi segir Hörður að lokum: „Já það er spennandi að heyra um það þegar ég er ekki þarna til að hafa áhrif.“

Guðni Tómasson ræddi við Hörð Áskelsson í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

Mótettukórinn ætlar að fylgja Herði úr Hallgrímskirkju

Trúarbrögð

Sóknarnefndarformaður ósammála skrifum kantors

Menningarefni

Kantor upp á kant við æðri völd í Hallgrímskirkju