Tveir skólar komnir áfram í úrslit Skólahreysti

Mynd með færslu
 Mynd: Skólahreysti

Tveir skólar komnir áfram í úrslit Skólahreysti

04.05.2021 - 21:37
Fyrstu undanriðlarnir í Skólahreysti fóru fram á Íþróttahúsinu á Akureyri í dag. Þar kepptust 18 skólar af Norður- og Austurlandi um tvo farmiða í úrslitin, sem fram fara 29. maí.

Í fyrri riðli dagsins voru það Árskóli, Blönduskóli, Egilsstaðaskóli, Grunnskólinn á Þórshöfn, Grunnskólinn austan Vatna, Grunnskóli Fjallabyggðar, Húnavallaskóli og Nesskóli sem kepptu. Grunnskólinn austan Vatna bar sigur úr býtum en skólinn sigraði bæði í dýfum og hraðaþrautinni og skákaði Húnavallaskóla sem endaði í öðru sæti.

Í seinni riðlinum mættu svo krakkar úr Brekkuskóla, Dalvíkurskóla, Giljaskóla, Glerárskóla, Lundarskóla, Naustaskóla, Oddeyrarskóla, Þelamerkurskóla, Valsárskóla og Varmahlíðarskóla til leiks og keppnin var æsispennandi. María Sól Jónsdóttir úr Giljaskóla sigraði í bæði armbeygjum og hreystigreip en hún gerði 53 armbeygjur og hékk í heilar 7 mínútur og 39 sekúndur í hreystigreipinni. Það var hins vegar Dalvíkurskóli sem sigraði að lokum með 60 stig, einu stigi meira en Varmahlíðarskóli sem endaði í öðru sæti með 59 stig.

Undankeppni Skólahreysti heldur áfram í næstu viku í beinni útsendingu 11. og 12. maí þar sem fleiri miðar í úrslitin verða í boði.