Þvottavélin Þörf var bylting í sveitum

Mynd: Auglýsing / Tíminn 19. janúar 1954

Þvottavélin Þörf var bylting í sveitum

04.05.2021 - 15:01

Höfundar

Um miðja síðustu öld hóf uppfinningamaðurinn Alexander Einbjörnsson að smíða handknúnar þottavélar sem hann nefndi Þörf. Þvottavélin þótti mikil bylting og Alexander seldi yfir þúsund vélar sem notaðar voru víða í sveitum, allt þar til rafmagn kom á bæina.

 

Smíðaði sjálfur yfir þúsund eintök

„Það var auðvitað mikið talað um þessa vél því húnn seldist mjög mikið skilst manni,“ segir Örn Alexandersson, sonur Alexanders. Örn er of ungur til að muna eftir vélinni sem faðir hans seldi í yfir þúsund eintökum en hann smíðaði þær allar sjálfur. 

Sótti um einkaleyfi fyrir nokkrum uppfinningum

„Hann var einyrki alla sína tíð, ég man bara eftir honum frá morgni til kvölds, alveg til 93 ára þegar hann dó. Ég man eftir nokkrum uppfinningum sem hann sótti um einkaleyfi fyrir,“ segir Örn. Faðir hans smíðaði meðal annars handklæðaofna sem hann seldi um árabil og auk þess bjó hann oft sjálfur til tækin til þess að smíða hluti. 

Ekki skemmtilegasta verkið að þvo

Sigurður Oddsson er alinn upp á bænum Kolviðarnesi í Eyjahreppi en þar líkt og víða á þessum tíma var ekki komið rafmagn. Sigurðu man vel eftir þvottavélinni Þörf. „Þetta var ekki skemmtilegasta verkið,“ segir Sigurður. Landinn fékk sýnikennslu í því hvernig þvo ætti í þvottavélinni Þörf.