„Þetta er náttúrulega bara skelfilegt“

04.05.2021 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er náttúrulega bara skelfilegt en því miður er þetta eitthvað sem við höfum búist við því það er búið að vera svo þurrt í vetur og sérstaklega í vor og allur gróður skraufþurr,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.

Mikill mosi, lúpína og trjágróður

Hann segir að í þurrkum sem þessum megi ekkert gerast. „Það er alltaf jafnskelfilegt að horfa upp á þetta. Þetta svæði sem er undir sýnist mér vera frá Hjalladölunum og austur og suður með í áttina að Vatnsendakrikum. Þetta er mjög stórt svæði og þarna er mikill mosi og lúpína og alls konar trjágróður, birki og víðir og barrtré sem er búið að gróðursetja þarna. Mér sýnist þetta vera í jöðrunum á barrtrjáabeltunum,“ segir Jónatan. 

Smá logi nóg til að koma af stað gróðureldum

„Það er alltaf hætta þegar það koma þurrkar að sina og þurr gróður fari af stað ef það kemur upp smá logi, hvort sem það er úr sígarettu eða bara frá glerbroti sem sólin skín í gegnum. Það má ekkert gerast. Í skógræktarlöndum eins og Svíþjóð, Póllandi og víða í Evrópu eru sérstök slökkvilið með þyrlur sem eru í því að vakta svæði og um leið og kemur upp eldur fer allt af stað. Hér þarf kannski að fara í að búa til nýja vegi og slóða og ryðja brautir því við megum reikna með að þetta gerist í framtíðinni,“ segir Jónatan. 

Þarf að bregðast strax við

Fólk þurfi að fara varlega með eld og aldrei henda frá sér hlutum sem geta komið af stað bruna, hvort sem það sé glerflaska eða sígaretta. „Þetta er bara spurning um að fara varlega og svo þegar svona lagað kemur upp þarf að bregðast við strax,“ bætir hann við. 

Hvað er gert til þess að reyna að hjálpa jarðveginum eftir svona?

„Það er voða lítið hægt að gera annað en að bíða og sjá hvað lifir af eftir árið og svo er hægt að gróðursetja í sárin. Það er þekkt að gera það. En á þessu svæði er það mikið af trjágróðri að ég reikna alveg með að það dreifi sjálft úr sér fræið, ef það er gott fræár. En það er um að gera að reyna að gróðursetja í það. Því ef þetta er brunnið niður í svörð þá getur farið að blása upp og betra að koma í veg fyrir það,“ segir Jónatan að lokum.