Norsk kona dæmd fyrir liðveislu við Íslamska ríkið

04.05.2021 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - NRK
Þrítug norsk kona var í dag dæmd í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir liðveislu við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið. Konan flutti til Sýrlands árið 2013 og giftist liðsmanni Íslamska ríkisins.

Þau eignuðust tvö börn, en konan var svo sótt af norskum stjórnvöldum árið 2020. Réttarhöldin yfir henni hófust í mars en í dómnum sem féll í dag segir meðal annars að konan hafi með fullri vitneskju og vilja veitt hryðjuverkasamtökunum liðveislu.

Hér má lesa ítarlega umfjöllun NRK um mál konunnar. 

Saksóknari fór fram á fjögurra ára fangelsisdóm yfir konunni, en verjandi hennar vildi að hún yrði sýknuð af ásökununum. Hún ætlar að áfrýja dómnum, það tilkynnti hún sjálf í dómssalnum í dag. 

Dómurinn gæti orðið fordæmisgefandi fyrir þær norsku konur sem enn dvelja í Sýrlandi. Margar þeirra hafast við í flóttamannabúðum. Örlög kvenna sem veitt hafa hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu liðveislu hafa verið mikið pólitískt bitbein í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þá er einnig tekist á um hver réttarstaða barna þeirra er. 

Í al Hol fangabúðunum í Sýrlandi hafast við um 60 þúsund konur og börn sem tengjast hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu. Þar af eru nær 35 þúsund börn undir 12 ára aldri, hverra foreldrar hafa eða höfðu tengsl við samtökin. 

Hér má lesa og hlýða á umfjöllun um börnin úr Heimskviðum í fyrra. 
 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV