Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Læt ekki aðra stjórna því hvort ég leik eða ekki“

Mynd: RÚV / RÚV

„Læt ekki aðra stjórna því hvort ég leik eða ekki“

04.05.2021 - 14:10

Höfundar

Leikkonan Edda Björg Eyjólfsdóttir stóð á tímamótum þegar samningur hennar hjá Þjóðleikhúsinu rann út árið 2009, skömmu eftir hrun. Hún varð vandræðaleg þegar hún var spurð hvar hún væri að leika en ákvað að setjast í ökumannssætið í sínum ferli. Hún hefur skapað sér fjölmörg tækifæri og er nú að sýna leikritið Haukur og Lilja í Ásmundarsal.

Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona er fædd árið 1972 og uppalin í Kópavoginum hjá ömmu sinni og afa. Æskuárunum lýsir hún sem dásamlegum og hún segir mikla gæfu að fá að vera í faðmi langforeldra sinna. Þegar hún sleit barnsskónum og var orðin nógu gömul til að standa á eigin fótum flutti hún ekki langt, heldur í kjallarann hjá þeim. „Ég var eins lengi og ég gat,“ segir hún. Þegar hún var yngri ásýnd Kópavogs frábrugðinn því sem núna er. Steinsnar frá húsi hennar bjó maður með hesta og víða átti enn eftir að malbika. Hún gekk í Kópavogsskóla og líkaði vel. Edda Björg ræddi við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1 um uppvöxtinn, ástina og leiklistina og hvernig hún sigrast á feimni og höfnun með því að ögra sjálfri sér.

Skemmtilegasta fólkið í tossabekk

Á þeim tíma var bekknum skipt upp eftir styrkleikamati kennara og Edda segist greinilega hafa verið í tossabekk. „Það var líka bara skemmtilegt. Þar var langskemmtilegasta fólkið,“ segir hún glettin. „Nei, þetta eru allt góðir vinir mínir í dag.“ Mest naut hún sín í skapandi fögum, hún undi sér við teikningu og söng en líka í tarsanleikjum í íþróttatímum og jólaföndri í aðventunni. Í MH valdi hún eins marga teikniáfanga og hún gat og á tímabili stóð til að leggja fyrir sig grafíska hönnun eða myndlist. „Það veitir mér vellíðan og hugarró að teikna og mála.“

Féll fyrir leikhúsinu sem barn með ömmu og afa

Í MH fór ástríðan fyrir söng að gera vart við sig. Hún fékk inngöngu í MH-kórinn og áttaði sig á að hún gæti sungið. „Maður þarf að uppgötva þetta hjá sjálfum sér,“ segir hún. Edda Björg fann fyrir auknu sjálfstrausti þegar hún fór að treysta sér til að syngja fyrir framan skólafélagana. En leiklistin togaði líka og hún gekk til liðs við leikfélag skólans. Sá áhugi hafði blundað í henni lengi enda alin upp við að fara á leiksýningar og á óperuna með ömmu sinni og afa frá barnæsku. „Að fara í leikhúsið var algjörlega heillandi heimur og mig langaði bara að verða leikkona, en sagði það engum. Ég elskaði að fara og fór á allt sem ég gat séð,“ rifjar hún upp. „Söngtextarnir í leikskránni, konfektið í plastpokanum og appelsínusúkkulaðið. Það var alveg sérstök lykt. Þetta byrjaði strax.“

Í níunda bekk fengu nemendurnir tækifæri til að velja sér stað til að fara á starfskynningu og þá valdi Edda einmitt Þjóðleikhúsið, án þess að hafa hugmynd um hversu vel hún fengi að kynnast húsinu í framtíðinni. „Þá er einhver ósk sem fer af stað út í kosmósið. Þó ég hafi ekki verið með það konkret í hausnum á mér að ég leikkona og vinna í Þjóðleikhúsinu, þá var ferðalagið farið af stað.“

„Hva, ertu hrædd við þetta?“

Þrátt fyrir að hafa átt glæstan feril í leiklist og komið fram við alls konar ólíkar og oft krefjandi aðstæður þá finnur Edda enn stundum fyrir feimni. Í hvert sinn sem það gerist þá skorar hún á sjálfa sig. „Ég man þegar ég var einu sinni beðin um að vera kynnir á Eddunni og var bara: Þetta er rosalegt. Þá kemur svona rödd sem segir: Þá verðurðu að gera það. Hva, ertu hrædd við þetta?“ segir hún. „Það er gott að ögra sér og hafa hugrekki.“

Edda komst inn í leiklist og var í bekk með Ólafi Darra, Agnari Jóni Egilssyni, Friðrik Friðrikssyni, Guðmundi Inga Þorvaldssyni, Lindu Ásgeirsdóttur og Sjöfn Evertsdóttur. Með þeim hópi fékk hún fjölmörg tækifæri til að ögra sér og takast á við áskoranir. „Þetta er ótrúlega gaman,“ segir hún um námið. „Þetta snertir alla þætti þess að vera manneskja.“ Félagslegi þátturinn hafi ekki síst verið mikilvægur og það að vinna með sama hópnum í fjögur ár kenndi henni margt. „Þessi ár voru bara stórkostleg sko.“

Heillaði Eddu upp úr skónum þegar hann lék lag eftir pabba sinn

Eiginmaður Eddu Bjargar er Stefán Már Magnússon tónlistarmaður. Honum tókst að fanga hjarta Eddu með því að spila fyrir hana á gítar lag sem faðir hans gerði frægt, Ef þú ert mér hjá með Mannakorni. „Hann heillaði mig gjörsamlega upp úr skónum,“ segir Edda. Hún átti í fórum sér Mannakornsplötu með laginu og eftir að Stefán spilaði það fyrir hana var hún dugleg að setja það á fóninn heima hjá sér. „Hann algjörlega bræddi mig.“

„Mér leið illa með þetta“

Senn verða liðnir tveir áratugir frá útskrift og Edda hefur síðan leikið fjölmörg hlutverk í sjónvarpi, á hvíta tjaldinu og í leikhúsinu. Síðustu ár hefur hún líka sjálf skapað sér tækifæri og framleitt efni. Árið 2009, rétt eftir hrun, rann út samningur hennar hjá leikhúsinu. Þegar hún hitti fólk á förnum vegi var hún gjarnan spurð hvort hún væri ekki á fullu í Borgarleikhúsinu. Þegar því var svarað neitandi var hún spurð hvort hún væri í Þjóðleikhúsinu. Eftir annað nei segir Edda að skapast hafi vandræðaleg þögn. 

„Edda þú ert listamaður“

„Mér leið illa með þetta og þurfti að skoða þetta. Er ég að fara að skilgreina sjálfa mig út frá því hvar ég vinn? Það gengur ekki,“ hugsaði hún. Edda ræddi við Hörpu Arnardóttur leikstjóra sem hún kallar mentor í lífi sínu sem gaf henni áminningu. „Hún sagði Edda þú ert listamaður, og kom með sína peppræðu. Og þá finnur maður að ég gert hluti sjálf.“ 

Langar að leika og leikstýra og þroska sig sem listamann

Það gerði Edda sem stofnaði leikhópinn Aldrei óstelandi og setti upp Fjalla-Eyvind í Norðurpólnum í leikstjórn Mörtu Nordal. „Við setjum upp þessa sýningu og það gefur manni sjálfstraust,“ segir hún. „Ég ætla ekki að láta einhverja stjórna því hvort ég leik eða ekki, ég verð að stjórna þessu sjálf og það er gott að búa sér til tækifærin þannig.“ Hún er hugmyndarík og hefur hrint fjölmörgum í framkvæmd en hún á nóg til. „Mig langar að leika og leikstýra til að þroska mig sem listamann. Þá verður maður að takast á við krefjandi hluti og finna til sín. Ég hef þurft og viljað gera það, og það hefur lukkast.“

„Fyrst ég get þetta get ég allt“

Hún fékk þá hugmynd að setja upp einleikinn 4.48 Psychosis sem var síðasta verk breska leikskáldsins Söruh Kane. Henni gekk ekki greiðlega að fá styrk fyrir verkefninu þar sem það er erlent. En Edda gafst ekki upp. Hún bókaði fund með fyrirtækjum sem styrktu hana, meðal annars með Björgólfi Jóhannssyni sem þá var forstjóri Icelandair Group. „Ég fór og náði í pening, í leðurbuxum, hvítri skyrtu og með rauðan varalit og pitchaði hugmyndinni einleikur um konu sem fremur sjálfsmorð, létt og skemmtileg sýning,“ segir hún kímin. Hún fékk styrk og setti verkið upp í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu við afar góðar undirtektir. „Ég hugsaði vá, fyrst ég get þetta get ég allt.“ Sama dag og hún skrifaði undir samning um að setja sýninguna upp var einmitt sólmyrkvi á himni. „Það var táknrænt,“ segir hún.

Hálfgert sjálfshjálparleikrit eftir Elísabetu Jökuls

Um þessar mundir er Edda Björg að leika í sýningunni Haukur og Lilja eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sem frumsýnt var í Ásmundarsal í síðustu viku í leikstjórn Maríu Reyndal. Edda leikur á móti Sveini Ólafi Gunnarssyni vini sínum og Stefán Már eiginmaður hennar leikur lifandi tónlist á sviðinu ásamt Þorvaldi Þór Þorvaldssyni. Sýningin fjallar um hjón sem eru að taka sig til fyrir veislu. „Hún er mjög kvíðin og finnst eins og hún vildi frekar deyja en að fara í veislur, „mér finnst þær æðislegar en ég bara meika þær ekki,“ segir Edda um karakter sinn, Lilju. „Textar Elísabetar eru skemmtilegir, þetta er hálfgert sjálfshjálparleikrit,“ segir Edda. „Þetta fer inn í þennan stóra pakka sem lífið er, þetta er mjög fallegur, óvæginn og skrýtinn texti eins og henni er einni lagið.“

Sýningar verða samtals átta, næstu tvær helgar og svo sér hópurinn til með framhaldið.

Gunnar Hansson ræddi við Eddu Björg Eyjólfsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

Appollónísku og díónýsísku hliðar mannsandans fangaðar

Leiklist

Haukur og Lilja kvíða fyrir veislu í Ásmundarsal

Menningarefni

Fékk óvæntar ráðleggingar frá bankastarfsmanni

Leiklist

Verulega áhrifaríkt hjá Eddu Björg