Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Katrín segir að hagsmunagæslan þurfi að vera gagnsæ

04.05.2021 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Stig Nygaard - WikiCommons
„Íslenska utanríkisþjónustan og einstök ráðuneyti eru í stöðugri hagsmunagæslu fyrir Ísland og síðan skiptir auðvitað máli að það sé gert með gagnsæjum hætti og með opnum hætti,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Högni Hoydal, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, sagðist í síðasta mánuði hafa upplifað pólitískan þrýsting frá Íslandi, meðal annars frá íslenskum fyrirtækjum, stjórnmálamönnum og ráðherrum. Þetta hafi tengst vinnu við breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyinga og eignarhaldi í færeyskum sjávarútvegi.

„Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig þessi samtöl voru. Ég sat ekki í ríkisstjórn á þessum tíma,“ segir Katrín. „Almennt er það hins vegar þannig að íslenska utanríkisþjónustan og einstök ráðuneyti eru í stöðugri hagsmunagæslu fyrir Ísland og síðan auðvitað skiptir máli að það sé gert með gagnsæjum hætti og með opnum hætti,“ segir hún.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í síðustu viku að ekki hafi verið þrýst á Færeyinga vegna fyrirhugaðra lagabreytinga á eignarhaldinu, heldur hafi athugasemdum verið komið á framfæri svo eignir íslenskra fjárfesta þar yrðu ekki seldar á brunaútsölu.