Hvorki eldur né vatn fékk henni grandað

Mynd: Arndís Þórarinsdóttir / Arndís Þórarinsdóttir

Hvorki eldur né vatn fékk henni grandað

04.05.2021 - 14:56

Höfundar

Fornhandritið Möðruvallabók sem nú kúrir í Árnagarði og lætur sig hlakka til að sýna sig í Húsi íslenskra fræða með öllum sínum 200 kálfskinnssíðum sem muna sannarlega margt frá fornri tíð bæði hér á Íslandi og úti í kóngsins Kaupmannahöfn. Rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir hefur nú hlerað þessa gömlu skruddu og fengið hana til að segja frá í bókinni Bál tímans.

„Ég hef verið send í hnakktöskum yfir íslenskar sveitir, ég hef verið geymd í ótryggum húsum og eldur hefur verið borinn að blöðunum mínum. Ég hef farið í hættulegar sjóferðir og verið borin út úr brennandi húsi.“ 

Það var fyrir um það bil 700 árum að byrjað var að afrita nokkrar af helstu fornsögunum á afar vel verkað kálfskinn. Slíkt er vandasamt verk og tímafrekt og ekki tókst að endurrita allar þær sögur sem vilji var til. Það var til að mynda skilið eftir pláss fyrir Gauks sögu Trandilssonar, sem aldrei var skráð. Það veit og heldur enginn hvar púlt skrifarans stóð, hver bað hann um að inna þetta lítilræði af hendi né hvenær hann dró sinn fjöðurstaf yfir skinnblöðin. En það má grafast fyrir í ýmsum ritum og í þessari fallegu bók sjálfri. „Fræðimenn eru ennþá að vinna beinlínis með þessar síður og það er svo magnað,“ segir Arndís í viðtali í Orðum um bækur á Rás 1.

Til þess að úr verði heildstæð, spennandi og áhugaverð saga, sem Bál tímans, örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár sannarlega er, þurfti auðvitað að grafa upp atburði, byggja brýr og tengja á milli. Arndís kýs að elta konurnar í gegnum söguna en vitað er um allmargar konur sem voru miklir handritasafnarar og gættu þessara dýrgripa vel þótt heimildir um það liggi ekki á lausu heldur þurfi að leita eins og meðal annars annars Guðrún Ingólfsdóttir hefur gert og  skrifað bókina Á hverju liggja vorar göfugu kerlingar sem kom út árið 2017. Meðal þessara handritasafnara var Margrét Vigfúsdóttir sem bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði á fimmtándu öld og það er ekki ólíklegt að hún hafi fengið einmitt þetta forna handrit til varðveislu og eignar.

Hvort allt gerðist nákvæmlega eins og sagt er frá í skáldsögunni Bál tímans, veit enginn. „Ég leiði ekkert hjá mér sem vitað er um handritið,“  segir Arndís um aðferð sína, „og það sem ég bæti við á allt að standast skoðun. Engin persóna er uppdiktuð utan kannski einn og einn munkur.“ Oftar en ekki leiddu sögulegar staðreyndir, sem kannski alla jafna er ekki mikill gaumur gefinn, til þess að frásögnin fékk raunverulegt kjöt á beinin eins og til dæmis þegar Magnús Björnsson fær Möðruvallabók til eignar og ritar nafn sitt á hana, gefur henni í raun þar með nafn sitt. Elín Pálsdóttir, móðir Magnúsar, var orðin roskin þegar þetta var. Það kemur fram í heimildum að yngsti sonur hennar var fatlaður og hún vildi vera viss um að einhver sæju um hann eftir hennar dag. Í bók sinni lætur Arndís hana fela Magnúsi það verkefni og fyrir það fær hann bókina fögru enda Magnús bókasafnari samkvæmt heimildum. 

Það steðja margar hættur að handritum og þeirra eru eldur og vatn válegastar. Í sögunni, bæði hinni sagnfræðilegu og skáldsögu Arndísar munar oft mjóu, skip farast og eldar bála eins og í Kaupmannahöfn bæði í brunanum mikla árið 1728 og í fallbyssuskothríð Englendinga á borgina i  Napóleonsstríðinu sjötíu árum síðar.        

Bál tímans; Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur er barnabók og því fá börn sína hlutdeild í sögunni. „Börn læra auðvitað að lesa af þessum skinnbókum. Það finnst spássíukrot eftir börn sem hafa verið að lesa og skrifa.“ Bókin er eigi að síður spennandi lesning fyrir hvern sem er og gefur lifandi mynd af þeim kraftaverkum og sögulegu vendingum sem þessi gullfótur sem handritin eru hafa gengið í gegnum. Og nú er vonandi síðasta kraftaverkið á næsta leyti þegar allt góssið verður flutt í fullkomnustu geymslur í nýju Húsi íslenskra fræða þar sem við getum alltaf barið þau augum og fundið fyrir nið aldanna og fræðimenn uppgötvað ný sannindi um hugsun og hugarflug manneskjunnar. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: handritin heima
Möðruvallabók

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Möðruvallabók á þvælingi um Íslandssöguna

Innlent

Hornsteinn Húss íslenskunnar lagður síðasta vetrardag