Hundrað ára landamæri og áratuga átakasaga

04.05.2021 - 17:03
Mynd: EPA / EPA
Þann 3. maí, fyrir hundrað árum varð skipting Írlands staðreynd. Þess er nú víða minnst, á Írlandi, Norður-Írlandi og í Bretlandi. Friðarsamningurinn 1998 lægði ófriðaröldurnar á Norður-Írlandi en ýmsir óttast neikvæð áhrif Brexit og afskiptaleysis bresku stjórnarinnar.

Þriðji maí, 1921: Norður-Írland varð til

Fyrir einni öld voru lögð 500 kílómetra löng landamæri sem skiptu 32 sýslum Írlands í tvennt: sex sýslur áfram undir breskri stjórn, 26 stofnuðu írska lýðveldið.

Landamærin voru útkoma áratuga deilna og óeirða lýðveldissinna eða þjóðernissinna, flestir kaþólikkar, sem kusu sjálfstætt Írland og svo sambandssinna, flestir mótmælendatrúar, sem vildu áframhaldandi breska stjórn. Í áratugi voru átökin gjarnar kennd trúarbragðaátökum sem er mikil einföldun. Þarna tókust á hópar, sem burtséð frá trú, horfðu í ólíkar áttir.

Vopnuð barátta og tímasprengjur

Írski lýðveldisherinn, IRA, er vopnaði armur lýðveldissinna, sem barðist fyrir sínum málstað með vopnum gegn Bretum. Tímasprengjur voru sérgrein IRA. Þannig var það á hótelinu í Brighton 1984, þar sem ársþing Íhaldsflokksins var haldið: fimm létust, 31 slasaðist en sú, sem sprengjan átti að granda, Margaret Thatcher forsætisráðherra, slapp.

Saga blóðugra daga

Fimm árum áður var Mountbatten lávarður, frændi Elísabetar drottningar, drepinn. Bátur hans sprengdur í loft upp á Írlandi. Tveir táningsdrengir, annar þeirra dóttursonur lávarðarins og föðuramma drengsins létust í tilræðinu. Sama dag voru 18 breskir hermenn drepnir í sprengjuárás á Norður-Írlandi, einn blóðugasti dagurinn í blóðugri sögu.

1993: City eins og vígvöllur

Árið 1993 var bílsprengja sprengd í fjármálahverfinu í London. Svæðið hafði verið rýmt, lögreglunni gert viðvart eins og oft var. Einn lést, fimm slösuðust. Gatan var eins og vígvöllur, nálæg hús að hruni komin.

Á átakaárunum 1966 til 1999, létust tæplega 2700 manns, tæplega 60 prósent fyrir hendi lýðveldissinna. Tölurnar segja sitt, í þessari áratuga síbylju óeirðafrétta.

Friðarsamningur 1998, sem hefur haldið vel

Þeim fréttum fækkaði 1998 með friðarsamningnum, kenndum við föstudaginn langa. John Major leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra árin á undan, til 1997 vann ötullega að friði en það kom í hlut eftirmannsins Tony Blair leiðtoga Verkamannaflokksins að skrifa undir samkomulagið sem forsætisráðherra Breta.

Hönd sögunnar

Eitt af frægari tilsvörum Blairs: nei, ekki dagurinn fyrir hljóðbít, sagði forsætisráðherra en kom svo með dæmigerðan hljóðbít, við skynjuðum hönd sögunnar á öxlunum. – Sáttasemjarinn þá var bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn George Mitchell. Írsk undirtök sterk í bandarískum stjórnmálum. Joe Biden Bandaríkjaforseti er af írskum ættum og áhugasamur um írsk málefni.

Að mestu friður en breskir forsætisráðherrar hafa ekki misst sjónar á Norður-Írlandi

Það datt ekki allt í dúnalogn samstundis. Breskar ríkisstjórnir þurftu áfram að hafa augun staðfastlega á eyjunni grænu. Þegar tveir breskir hermenn voru drepnir á Norður-Írlandi 2009 var Gordon Brown þá forsætisráðherra fljótur á vettvang og tók síðan málið strax upp í þinginu. Þó það væru enn nokkrir morðingjar á stjái vildu Norður-Írar frið og friðarferlið stæði, sem fyrr.

Óeirðaseggir yngri en friðarsamningurinn

Það hefur vakið áhyggjur að nýlega blossuðu upp óeirðir í Belfast, stóðu í nokkra daga. Lát Filuppusar prins og drottningarmanns batt endi á þær, talað um að ófriðaröflin vildu sýna hinum látna öldungi virðingu. Óeirðarseggirnir, sem grýttu lögregluna og kveiktu í bílum, allt eins og einu sinni var, voru flestir barnungir, fæddir eftir friðarsamninginn. Þar að baki er þessi samtvinnun glæpa og herskárra pólitískra afla, sem lengi hafa sett svip á Norður-Írland.

Brexit hefur haggað viðkvæmu jafnvægi

Brexit er eitt af því sem hefur haggað þessu viðkvæma jafnvægi, sem þarna hefur verið. Brexit-samkomulag Borisar  Johnsons forsætisráðherra við Evrópusambandið hefur búið til landamæri milli Norður-Írlands og Bretlands. Lausn, sem forverinn Theresa May taldi að enginn breskur forsætisráðherra gæti nokkru sinni samþykkt einmitt af því Norður-Írland er þá skorið frá.

Áhugaleysi núverandi forsætisráðherra á Norður-Írlandi andstætt áhuga Bidens

Í viðtali í tilefni af aldarafmælinu sagði Sir Hugh Orde fyrrum yfirmaður samtaka breskra lögreglumanna það áhyggjusamlegt að frá bresku stjórninni vantaði nú forystuna varðandi Norður-Írland, vantaði þar þungann og skilninginn á því að halda mönnum við friðarefnið, halda áfram að tala saman.

Sjálfstæðisöfl í Skotlandi gætu styrkt málstað norður-írskra lýðveldissina

Áþreifanlega vandamálið er Brexit og svo brotin loforð, sagði Sir Hugh. Og svo þetta að það vantaði öll tök á æðsta stigi stjórnmálanna, frá forsætisráðherra, en áhugavert að Joe Biden Bandaríkjaforseti léti sig málið skipta.

Of snemmt að spá um næstu öld á Norður-Írlandi en sjálfstæðisöfl í Skotlandi gætu vissulega ýtt styrkt málstað lýðveldissinna á Norður-Írlandi.