Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Heimaslátrun heimiluð með skilyrði um læknisskoðanir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bændum verður heimilt að slátra sauðfé og geitum á eigin búum og dreifa á markaði, samkvæmt nýrri reglugerð Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, fagnar reglugerðinni en segir að kröfum um læknisskoðun kunni að fylgja vandræði á þeim bæjum sem eru langt frá dýralæknaþjónustu.

„Ég held að þarna séu tækifæri fyrir þá bændur sem hafa verið í sölu beint frá býli að útvíkka sína starfsemi og gera hana öflugri. Ég held að þetta sé fínn grunnur til að byggja á en svo er það auðvitað alltaf svoleiðis að eftir því sem verkefnið þróast þá kemur eitthvað upp sem þarf að breyta og laga og þá kemur það bara með reynslunni,“ segir hún. 

Síðasta sumar undirritaði Guðfinna samkomulag við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tilraunaverkefni um heimaslátrun. Verkefnið gekk vel en fjareftirlit með slátrun var erfiðleikum bundið. Í reglugerðinni er því kveðið á um að opinberir dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og að kostnaður vegna þess greiðist úr ríkissjóði. 

„Það verður að finna flöt á því að þetta geti gengið með samstarfi dýralækna og bænda. En auðvitað er þetta erfiðara í framkvæmd þar sem eru langar vegalengdir í dýralæknaþjónustu og það geta alveg verið úrlausnarefni. Neytendur verða að geta treyst því að þetta verkefni sé í samræmi við hollustuhætti. Við erum framarlega í því á Íslandi og við megum ekki gefa allan afsláttinn af því. Hjá okkur eru matarsýkingar mjög fátíðar og við verðum að hafa allt á hreinu í þessu eins og í öðrum matvælaverkefnum á Íslandi,“ segir Guðfinna.