Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Heiðmörk mun ná sér“

04.05.2021 - 19:46
Mynd: Ívar Gunnarsson / Ívar Gunnarsson
„Þetta er fyrst og fremst furuskógur og á að giska eru þetta um fimm hektarar sem hafa þegar brunnið. Þetta er um tuttugu ára gamall skógur á þessu svæði og margir Reykvíkingar þekkja þennan skóg. Þetta var jólaskógur Reykvíkinga í þó nokkur ár fyrir örfáum árum,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Allt tiltækt slökkvilið, lögregla og landhelgisgæslan hefur barist með aðstoð þyrlu við gróðurelda sem hafa logað sunnan við Vífilsstaðavatn í Heiðmörk nærri höfuðborgarsvæðinu í dag. Slökkvilið telur sig hafa náð tökum á eldinum en varðstjóri segir að enn sé heilmikil vinna eftir við að slökkva hann.

Auður segir að engin mannvirki séu á svæðinu en að austar sé vatnsverndarsvæði Reykvíkinga. Engum stafaði ógn af eldinum.

„Okkur þykir náttúrulega vænt um skóginn og við erum að rækta hann. Heiðmörk fagnaði 70 ára afmæli á síðasta ári en samt sem áður er jörðin orðin frjósamari núna. Heiðmörk mun ná sér,“ segir hún.