Hagsmunahópum grautað saman í umræðunni

04.05.2021 - 07:30
Mynd: Skjáskot / RÚV
Gera þarf greinarmun á hagsmunahópum og þeim sem gæta sérhagsmuna í umræðunni um að landinu sé stjórnað af hagsmunahópum. Þetta segir Henry Alexander Henrysson, heimspekingur sem telur að það henti þeim sem gagnrýnin beinist að að grauta saman í umræðunni öllum hagsmunahópum. 

Landinu stjórnað af hagsmunahópum

Orð Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra í Stundinni um að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og að það sé meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá, hafa vakið mikla athygli. Seðlabankastjóri lét þessi orð falla í viðtali við Stundina og var þá verið að ræða að Samherji kærði í apríl 2019 fimm starfsmenn Seðlabanka Íslands vegna meintra brota í starfi í tengslum við rannsókn gjaldeyriseftirlits bankans á hendur fyrirtækinu. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum rannsakaði málið og vísaði kærunni frá í byrjun mars. 

Seðlabankastjóri sagði í sama viðtali að þörf væri fyrir miklu skýrari vernd í lög um opinbera starfsmenn og að hann hefði farið þess á leit við ríkisstjórnina að lögunum yrði breytt, en ekki fengið það í gegn.   

Hagsmunahópar hluti af lýðræðinu

Henry fagnar því að seðlabankastjóri hafi opnað á þess umræðu hér á landi. Hafa verði í huga að ekki sé óeðlilegt að ólíkir hópar í samfélaginu reyni að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það sé lýðræðislegt ferli. Mikilvægt sé að skilja á milli samtaka eins og til dæmis þeirra sem eru að koma á framfæri sjónarmiðum neytenda eða launþega annars vegar og fyrirtækja hins vegar. 

„En það sem ég held að seðlabankastjóri sé að nefna þarna og það sem gengur ekki og er ekki eins lýðræðislegt. Það eru þegar einhverjir sérhagsmunir liggja til grundvallar og það er verið að reyna að koma þeim á framfæri og það eru of greiðar boðleiðir t.d. fyrir sérhagsmuni til embættismanna eða stjórnsýslunnar eða jafnvel kjörinna fulltrúa. Það er eitthvað örlítið bogið við það í lýðræðislegu samfélagi.“

Hentar þeim sem eru gagnrýndir að grauta saman hagsmunahópum

Nefnd hafa verið í þessu samhengi ekki aðeins stórt fyrirtæki eins og Samherji heldur er líka samtök atvinnurekenda, samtök launþega, embættismenn með mikil völd og heilbrigðisstarfsmenn sem hafa verið lögsóttir.  Og í dag kynnir Alþýðusamband Íslands áherslur ASÍ vegna þingkosninganna. Allt eru þetta einhverjir hagsmunir og umræðan orðin svolítið ruglingsleg. 

Á maður að gera einhvern greinarmun á fyrirtækjum og samtökum? „Mér finnst það bara klárlega mikilvægt og ég held að umræðan þurfi að akkúrat að leita í þennan farveg að fólk geri þennan greinarmun. Af því það hentar þeim sem gagnrýnin beinist fyrst og fremst að, að þessu sé öllu grautað saman. Og maður sér það í umræðunni að þeir reyna jafnvel, þeir aðilar reyna að blanda þessu öllu saman því það er lang auðveldast að verjast gagnrýni þá. “ 

Seðlabankastjóri sé ekki að lýsa, í viðtalinu, lýðræðislegu gangverki samfélagsins þar sem ólíkir hagsmunaaðilar sem koma að borðum og ólíkir aðilar að koma sinni rödd á framfæri. 

„Það er ekki það sem ég held að hann eigi við heldur miklu frekar þeir sem eru að gæta ákveðinna sérhagsmuna, einstök fyrirtæki, einstakir aðilar og fleiri því um líkir sem hafa alls konar leiðir í venjulegu samfélagi til að standa vörð um rétt sinn, þ.e.a.s. geta leitað til dómstóla eða umboðsmanns Alþingis eða hvað sem er. “ 

Vantar hefðir í kringum lobbíisma

Henry segir að það sé hættulegt að tala niður samtök hagsmunaaðila. Slík samtök starfi í öllum samfélögum. Umræðu um hver sé eðlilegur eða óeðlilegur aðgangur að íslenskum stjórnvöldum vanti í íslensku samfélagi.  

Hér á landi vanti hefðir í kringum það sem kallað hefur verið erlendis lobbíismi. Þetta snúist um það hvernig hlutirnir eru gerðir, hvort stjórnsýslan sé nægilega sterk og njóti nægilegrar verndar til að takast á við þrýsting eða lobbíismann sem er í gangi.