Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fellur frá lagabreytingum eftir mannskæð mótmæli

04.05.2021 - 01:18
epa09173014 Members of the Mobile Anti-Riot Squad (ESMAD) confront protesters who arrive in the neighborhood where the President of Colombia Ivan Duque has his residence, during a day of protests against the tax reform, in Bogota, Colombia, 01 May 2021. Massive demonstrations and marches were held in the main cities of Colombia this Saturday to demand that the Colombian president withdraw the tax reform project. The protests have been going on for three days just as the country faces the third peak of the COVID-19 pandemic.  EPA-EFE/Mauricio Duenas Castaneda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mótmæli halda áfram í Kólumbíu þrátt fyrir afsögn fjármálaráðherra og ákvörðun Kólumbíuforseta um að draga til baka frumvarp hans um breytingar á skattalöggjöf landsins. Blóðug mótmæli síðustu daga hafa kostað sautján mannslíf.

Hörð og blóðug mótmæli gegn skattalagafrumvarpi fjármálaráðherra hafa staðið yfir í borgum og bæjum Kólumbíu síðan á miðvikudag í síðustu viku, þar sem skemmdarverk hafa verið unnin og ítrekað slegið í brýnu milli mótmælenda og lögreglu. 16 almennir borgarar og einn lögreglumaður hafa látið lífið í mótmælunum og yfir 800 slasast.

Bitnar verst á þeim sem síst skyldi

Andstæðingar frumvarpsins segja boðaðar breytingar bitna harðast á þeim sem minnst hafa á milli handanna, og það mitt í verstu heilbrigðis- og efnahagskreppu sem dunið hefði á kólumbísku þjóðinni um áratuga skeið.

Forsetinn, Ivan Duque, bauðst til þess á laugardag að fella á brott umdeildustu breytingarnar; lækkun skattleysismarka og hækkun virðisaukaskatts. Það nægði ekki til að lægja reiðiölduna og því ákvað forsetinn að fara fram á það við þingið, að frumvarp fjármálaráðherrans yrði dregið til baka í heild sinni og ráðuneytinu falið að vinna nýtt frumvarp.

Telur umbætur nauðsynlegar en mótmæli halda áfram

Duque segist ekki fara ofan af því, að brýnt sé að gera umbætur á skattalöggjöf landsins, með það fyrir augum að styrkja efnahag ríkisins og auka stöðugleika. Til að það megi takast verði þó að ríkja sátt um breytingarnar.   

 

Hún virðist þó ekki í sjónmáli, því þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið dregið til baka - og fjármálaráðherrann sagt af sér - heldur fólk áfram að mótmæla af krafti.