Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Alma bólusett ásamt um 10.000 öðrum

Mynd: Freyr Arnarson / Freyr Arnarson
Stærsta bólusetningarvikan til þessa er runnin upp og stríður straumur fólks á leið í Laugardalshöll í Reykjavík. Þar er verið að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma og heilbrigðisstarfsfólk með Pfizer, alls tíu þúsund manns í dag. Um helmingurinn fær fyrri sprautuna en hinn helmingurinn gengur út, því sem næst fullbólusettur. Alma Dögg Möller, landlæknir, var meðal þeirra sem voru bólusett í dag.

Miklar tafir hafa verið á umferð við Laugardalshöll í Reykjavík, þau sem komu akandi þurftu mörg að leggja langt í burtu. Í morgun teygði biðröðin sig að Reykjavegi.

422 stólar

Þegar inn í salinn er komið blasir við mannhaf, það er setið á 422 stólum og við og við er kallað, þá stendur heila röðin upp sem einn maður og gengur út úr salnum. Það er kannski ekki skrítið að það þyrmi yfir suma við að koma þarna inn og algengasta spurningin sem brennur á fólki er þessi: „Á ég bara að setjast einhvers staðar?“ Lögreglumaður við innganginn segir fólki til og það þarf ekki að sitja lengi til að læra möntruna. „Elta næsta mann, ykkur verður vísað til sætis.“

Hjúkrunarfræðingar færðu  vagnana milli sætaraða, samtaka í einum rykk, buðu góðan dag og sprautuðu næsta.

Klappað fyrir Ölmu

Meðal þeirra sem fengu sprautu voru Alma Möller landlæknir, það kvisaðist út og fólk klappaði, líka þau sem sátu aftast og voru ekki alveg viss um hvers vegna þau voru að klappa. Alma segist hafa beðið lengi eftir þessum degi. „Þetta var stórkostleg upplifun, ég var auðvitað búin að hlakka mikið til að fá mína sprautu en ekki síður að sjá þetta frábæra fyrirkomulag sem hér er. Ég er ótrúlega stolt af heilsugæslunni og öllu því fólki sem hér vinnur.“

Kláruðu seinni sprautuna og svo beint út að taka selfí

Fyrir feðginin Magnús og Regínu var þetta tilfinningarík stund. „Við vorum bæði að klára, það er ekki dónalegt að vera með yngstu dótturina með sér.“

Þannig að þið gangið glöð út í sólina?

„Heldur betur, maður er bara svona meyr eiginlega,“ segir Regína.

„Nú fer maður bara í myndatöku, svona selfí úti,“ segir Magnús.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Feðginin Magnús og Regína.