Allt lið kallað út vegna sinubruna í Heiðmörk

04.05.2021 - 16:02
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur sent allt tiltækt lið sitt í Heiðmörk til að berjast við sinuelda sem kviknuðu þar á fjórða tímanum í dag. Að auki hefur verið kallaður út aukamannskapur og óskað eftir aðstoð lögreglu, Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita.

Eldur kviknaði í sinu í Heiðmörk, sunnan við Vífilsstaðavatn, síðdegis en var þá á tiltölulega litlu svæði. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sendi slökkviliðsmenn á dælubíl og tankbíl á staðinn til að berjast við eldinn. Hann brann hins vegar nokkuð fjarri vegum og gerði það mönnum erfitt fyrir við slökkvistarf. Því var óskað aðstoðar Landhelgisgæslunnar. Þyrla hennar getur varpað vatni á eldinn úr lofti. Á fimmta tímanum breiddist eldurinn út og voru fleiri slökkviliðsbílar sendir á staðinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Séð frá Efstaleiti skömmu fyrir hálf fimm.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var því kölluð út í annað sinn á þremur dögum til slökkvistarfa í Heiðmörk. Í fyrrakvöld var óskað eftir aðkomu hennar vegna sinubruna í Búrfellsgjá. Hægt er að hífa vatn upp úr nálægum vötnum og losa það á eldinn úr lofti. Vonir slökkviliðsmanna stóðu til þess að hægt væri að nota þá aðferð til að slökkva sinubrunann í Heiðmörk sem fyrst. Það gekk hins vegar ekki eftir og er eldurinn orðinn mikill og útbreiddur.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 17:11.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Séð frá Efstaleiti á fjórða tímanum í dag.
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd