30 franskar herþotur seldar til Egyptalands

04.05.2021 - 05:50
epa03086839 (FILE) A file picture dated 16 June 2009 of a French Dassault Rafale fighter jet during the Paris Air Show over Le Bourget airport, near Paris, France. France's Dassault Aviation won a multi-billion-dollar contract with the Indian Air
Frönsk Dassault Rafale orrustuþota. Mynd: EPA - EPA FILE
Egyptar undirrituðu í vikunni samninga um kaup á 30 frönskum Rafale-orrustuþotum fyrir samtals 4,5 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði ríflega 560 milljarða íslenskra króna. Eygpska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessu í tilkynningu sem það sendi frá sér í morgun. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch, eða Mannréttindavaktin, gagnrýna frönsk stjórnvöld harðlega fyrir að heimila viðskiptin.

„Miskunnarlaus kúgunarstjórn“

Í yfirlýsingu samtakanna segir að með því að gefa grænt ljós á söluna ýti Frakklandsstjórn undir „miskunnarlausa kúgunarstjórn“ Abdels Fattah el-Sisis Egyptalandsforseta, undir yfirskini baráttu gegn hryðjuverkum.

Þegar þotuviðskiptin komust í hámæli seint á síðasta ári lýsti Emmanuel Macron, Frakklandsforseti því yfir, að hann vildi ekki binda hergagnasölu til Egyptalands neinum skilyrðum um að þarlend stjórnvöld virtu grundvallarmannréttindi. Þetta réttlætti hann með því, að hann vildi ekki draga úr styrk og getu egypskra yfirvalda til að bregðast við ofbeldisverkum og árásum.

Hafa samið um smíði og sölu 108 Rafale-þotna 2020 - 2021

Rafale-þoturnar eru framleiddar af flugvéla- og hergagnaframleiðandanum Dassault Aviation, sem fyrr á þessu ári samdi um sölu á 18 slíkum þotum til Grikklands. Einnig lögðu stjórnvöld í Katar og á Indlandi inn stórar pantanir hjá þessu franska fjölskylduveldi í fyrra. Þá pöntuðu Katarar 24 Rafale-þotur og Indverjar 36 stykki. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV