Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er í raun mesta floppið mitt“

Mynd: Ísland: bíóland / RÚV

„Þetta er í raun mesta floppið mitt“

03.05.2021 - 13:37

Höfundar

Baltasar Kormákur kveðst hafa lært mikilvægi þess að standa á sínu og gera ekki alltaf málamiðlanir, við gerð kvikmyndarinnar A Little Trip to Heaven sem kom út 2005. Hugmyndin hafi verið góð en þegar myndin var tilbúin hafi honum orðið ljóst að í teymið hefði vantað góðan handritshöfund til að útfæra hana betur.

Kvikmyndin A Little Trip to Heaven eftir Baltasar Kormák er á ensku en tekin upp á Íslandi. Ýmsar snjallar leikmyndabrellur eru notaðar til að sviðsetja hana í Minnesota í Bandaríkjunum. Leikarahópurinn er að mestu bandarískur og breskur, fremst í flokki eru Hollywood-leikararnir Forest Whitaker og Julia Stiles og auk þeirra meðal annars þeir Peter Coyote og Jeremy Renner.

„Þetta í raun fer alls ekkert vel“

Í þættinum Ísland: bíóland sem var á dagskrá á RÚV í gær er fjallað um myndina og rætt við leikstjórann Baltasar Kormák. Myndin er frá 2005 og kveðst leikstjórinn, sem einnig skrifar handritið, hafa lært heilmikið af gerð hennar. „Þarna er ég að gera mynd á ensku sem á að gerast í Ameríku og þetta í raun fer alls ekkert vel. Þetta er í raun og veru mesta floppið mitt.“

Mikilvægt að halda sýn sinni

Baltasar segir að í raun virki myndin ekki þegar upp er staðið, jafnvel þótt allir hafi lagt sig fram og ásetningurinn hafi verið góður. Einhvers staðar í verkefninu hafi verið teknar ákvarðanir sem urðu til þess að myndin tók ranga stefnu.

Lærdóminn segir hann fyrst og fremst vera þann að sem leikstjóri þurfi hann ekki alltaf að gera málamiðlanir, stundum sé hyggilegast að standa fast á sínu. „Það er rosalega mikilvægt að reyna að halda sýn sinni en vera samt samvinnuþýður. Það þýðir ekki að þú sért einhver guð sem má ekki gagnrýna, þú verður að halda þessari grunnpælingu“ segir Baltasar.

Hefði átt að fá góðan handritshöfund

Eftir á að hyggja hefði hann betur fengið til liðs við sig góðan handritshöfund til að vinna myndina með sér. „Þetta er fín hugmynd, alveg fín hugmynd að handriti. Það þurfti bara einhvern sem er betri en ég í að skrifa handrit til að vinna með mér.“

Baltasar kveðst ekki hafa hugað að grunnstoðunum áður en hann lagði af stað í ferðalagið því hann hefði langað svo mikið að gera bíómynd. „Ég bara fór af stað án þess að hafa gert þá forvinnu sem þarf til að gera svona mynd.“

Hér er hægt að horfa á Ísland: bíóland í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Hélt að ferli mínum væri lokið áður hann hófst“

Kvikmyndir

Í gegnum braggahverfi með snjóbolta í báðum