Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sóttkvíarhótelin sex ættu að duga út vikuna

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að slaka mikið á sóttvarnareglum. Hann skilaði minnisblaði til ráðherra um helgina. Ekki er útlit fyrir að sóttkvíarhótel fyllist í þessari viku en nú hafa sex slík verið tekin í gagnið. Umsjónarmaður sóttvarnahúsa segir að ný hótel verði opnuð eftir þörfum á meðan ríkið vill borga.

 

Þórólfur geldur varhug við miklum tilslökunum 

Fjórir greindust með smit innanlands í gær. Þeir voru allir í sóttkví og tengjast smitin fyrri hópsmitum. Núverandi sóttvarnareglugerð rennur út á miðvikudag og minnisblað sóttvarnalæknis er komið inn á borð til heilbrigðisráðherra. Það verður kynnt eftir ríkisstjórnarfund á morgun. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, neitar að vanda að tjá sig um efni þess en segir lítið rými til tilslakana. „Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á þessu þannig að við þurfum að flýta okkur hægt. Það voru tekin  öðru vísi sýni núna um helgina og ekki skimað eins mikið og áður. Væntanlega verður skimað meira í dag og tekin fleiri sýni þannig að við þurfum aðeins að líta á þetta í því ljósi.“

Hátt í fimm hundruð manns dvelja nú á sex sóttkvíarhótelum. Undanfarið hefur hópurinn stækkað og til að bregðast við því hafa ný hótel verið tekin í gagnið, síðast hótel Klettur í Mjölnisholti í Reykjavík. Sóttkvíarhótelin eru nú sex talsins, fimm í Reykjavík og eitt á Egilsstöðum. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa hjá Rauða krossinum, segir að daglega bætist á bilinu 40-70 gestir í hópinn.

Í dag koma þrjár farþegaþotur til landsins en í gær voru þær átta. Það er aðeins tekið að lifna yfir ferðaþjónustunni. Verður hægt að taka á móti öllum sem koma til landsins á næstunni? „Við bara verðum að gera það og bæta þá bara við nýjum hótelum ef þarf, í samráði við Sjúkratryggingar Íslands. Við þurfum að taka á móti öllum sem hingað vilja koma og eins þeim sem þurfa að koma hingað, þeim sem koma frá dökkrauðu löndunum.“ 

Sex hótel duga líklega út vikuna

En gengur þetta upp til lengri tíma litið ef ferðaþjónustan fer á flug? „Þetta er náttúrulega á kostnað ríkisins og ekki sjálfbært á meðan það er en við vitum ekki hversu lengi ríkið er tilbúið til að setja peninga í þetta. Þetta er náttúrulega gert til þess að reyna að hindra að veiran dreifist um landið.“ 

Gylfi segir að líklega dugi hótelin til, að minnsta kosti út þessa viku. „Nú erum við að dansa í takt, það er náttúrulega talsvert um útskriftir hjá okkur þannig að mér sýnist að þessi vika gæti verið þannig að við þurfum ekki að opna fleiri hótel. Svo er hitt að við vitum lítið um farþegafjölda þeirra véla sem eru að koma næstu daga. Það getur allt breyst og við þurfum alltaf að vera á tánum.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV