Skjálfti upp á 3,2 við Kleifarvatn – gosvirkni svipuð

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Jarðskjálfti ,sem mældist 3,2 að stærð, varð á Reykjanesskaga laust eftir klukkan þrjú í nótt. Upptök hans voru á 4,9 kílómetra dýpi um þrjá kílómetra vestur af Kleifarvatni. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að skjálftinn hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu. Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur sagði í samtali við fréttastofu að líklegast megi rekja skjálftann til spennubreytinga á umbrotasvæðinu.

Talsverð breyting varð á gosvirkninni í Geldingadölum um miðnæturbil í gærkvöld þegar hún gerðist mun sveiflukenndari en hún hafði verið. Miklir kvikustrókar tóku þá að gjósa mun hærra upp úr gígnum en áður hafði sést, allt að 300 metra upp í loftið, með drjúgum hléum inn á milli. Einar segir að virknin virðist hafa haldist í þessum sama, sveiflukennda fasa í nótt.