Sigga Ózk - Ný ást

Mynd: Sóllilja Tinds / Ný ást

Sigga Ózk - Ný ást

03.05.2021 - 22:20

Höfundar

Platan Ný ást er eftir tónlistarkonuna Siggu Ózk þar sem hún fjallar um ástina í gegnum fjölbreytt safn laga sem öll eiga það sameiginlegt að fjalla um blessaða ástina. Að sögn Siggu er þráðurinn sem hún spinnur ástarsaga sem kemst smám saman til skila í lögum plötunnar.

Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir sem kallar sig Siggu Ózk er 22 ára gömul tónlistarkona úr Garðabæ og gaf út plötuna Ný ást á afmælisdeginum sínum sem var þann 15. apríl. Plötuna vann hún í samstarfi við föður sinn, Hrafnkel Pálmarsson sem er kallaður Keli, og vinnan fór fram í bílskúrnum heima hjá þeim. Þar samdi Sigga Ózk og skrifaði texta við öll lögin og skapaði heild í samvinnu við föður sinn sem sá um undirleik og vann með henni að hljóðheimi plötunnar.

Sigga Ózk segist ætla sér stóra hluti í tónlistinni í framtíðinni og tekur fram í tilkynningu að hún muni ekki að láta neitt stöðva sig. Sigga Ózk gaf út sitt fyrsta lag fyrir þremur árum síðan og lítur björtum augum á framtíðina í tónlistarbransanum.

Ný ást plata Sigríðar Óskar Hrafnkelsdóttur er plata vikunnar á Rás 2 og er aðgengileg í spilara ásamt kynningum Siggu Ózkar og Kela á tilurð lagana, platan verður auk þess spiluð eftir tíufréttir í kvöld, mánudag.