Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Refsað með risasekt

Kjersting Braathen, forstjóri norska DNB bankans. - Mynd: EPA / RÚV
Norski bankinn DNB hefur verið sektaður um sem nemur sex milljörðum íslenskra króna fyrir slælegt eftirlit með peningaþvætti. Sektin er sú hæsta sem gefin hefur verið út síðan ný lög um varnir gegn peningaþvætti voru sett. Norska fjármálaeftirlitið segir að bankinn hafi leitt hjá sér fjölda viðvarana um mögulegt peningaþvætti, meðal annars í viðskiptum milli félaga Samherja.

Í tilkynningu norska fjármálaeftirlitsins kemur fram að mikið hafi vantað upp á að bankinn framfylgdi lögum um eftirlit með peningaþvætti.

Framhaldsrannsókn sem ráðist var í eftir umfjöllun um Samherjaskjölin hafi staðfest það. Niðurstaðan var sú að sekta norska bankann um 400 milljónir norskra króna, eða sem nemur um sex milljörðum íslenskra króna. „Við höfum komið okkur saman um styrktarupphæð fyrir DNB; ástæðan fyrir því er að við eftirlit kom í ljós að þeir hafa látið hjá líða að fara að lögum um peningaþvætti,“ segir Anna Viljugrein, yfirmaður bankaeftirlits Fjármálaeftirlitsins.

Norski bankinn gengst við sektinni og viðurkennir að miklar brotalamir hafi verið í eftirliti bankans. „Við tökum aðfinnslur Fjármálaeftirlitsins mjög alvarlega. Hlutverk okkar í baráttunni við fjármálaglæpi er mikilvægt og er forgangsefni í starfseminni,“ segir Kjerstin Braathen, forstjóri DNB.

Mjög há sekt á norskan mælikvarða

Fjármálaeftirlitið birti í morgun skýrslu sem unnin var í desember um viðskipti DNB við félög tengd Samherja. Hún er 36 síður en hluti skýrslunnar er yfirstrikaður og því ólæsilegur.  Ekki er lagt mat á hvort Samherji eða önnur félög hafi gerst brotleg við lög, en úttektin varpar ljósi á mörg tilvik þar sem viðvörunarbjöllur um mögulegt peningaþvætti hefðu átt að hringja, en gerðu ekki.

Sindre Heyerdahl hefur fylgst vel með málefnum DNB en hann er viðskiptablaðamaður viðskiptaritsins e24.no. Hann segir málið mikið áfall fyrir bankann. Í því samhengi nægi að horfa til sektarupphæðarinnar sem sé afar há á norskan mælikvarða. „Þetta er hægsta sektin eftir nýju reglugerðinni um slík brot. Svo að þetta er mikið áfall og upphæðin er umtalsverð samkvæmt norskum viðmiðum. Þetta er alvarlegt mál fyrir DNB og býsna óvægin gagnrýni frá Fjármálaeftirliti Noregs. Það tekur af öll tvímæli um að DNB hafi ekki staðist kröfur. Þeim var ætlað að skoða gaumgæfilega bæði mál Samherja og einnig fleiri mál.“

Sýnir hve mikilvægt mál Samherja er

Sindre segir ljóst að Samherjamálið eigi stóran þátt í því að norska fjármálaeftirlitið hafi ráðist í úttektina á DNB. Það sýni skýrslan sem birt var í dag. „Hún segir mikið um hve mikilvægt mál Samherja er og hvernig það leiddi til svo margvíslegra annarra athugana hjá fjármálayfirvöldum og hve alvarlegt allt málið er í augum norskra fjármálayfirvalda. „

Sindre segir að þótt Fjármálaeftirlitið hafi lokið málinu sé umfjöllun um það hvergi nærri lokið. Viðskiptaráðherrann hafi kallað eftir skýringum frá stjórn DNB og eins hafi stjórnmálaflokkar á þingi kallað eftir frekari upplýsingum.