Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rauðagerðismálið komið til héraðssaksóknara

03.05.2021 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rauðagerðismálið svokallaða er komið til héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, í svari til fréttastofu. Albanskur karlmaður hefur játað að hafa skotið Armando Bequiri, ríflega þrítugan fjölskylduföður frá Albaníu, til bana fyrir utan heimili hans um miðjan febrúar.

Níu dagar eru þar til gæsluvarðhald yfir manninum rennur út og þarf saksóknari að hafa gefið út ákæru á hendur honum áður.

Starfsmönnum héraðssaksóknara hefur verið haldið upplýstum um rannsóknina og voru þeir meðal annars viðstaddir þegar lögreglan sviðsetti atburðarásina í Rauðagerði í síðustu viku.

Fréttaskýringaþátturinn Kompás á visir.is segist í dag hafa heimildir fyrir því að hinn grunaði byssumaður hafi framvísað fölsku sakavottorði með umsókn sinni um dvalarleyfi hér á landi. Það hafi ekki verið afturkallað þegar þetta komst upp. Maðurinn var eftirlýstur í heimalandi sínu. 

Morðrannsóknin er ein sú umfangsmesta í Íslandssögunni. Um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi og fjórtán hafa réttarstöðu sakbornings. Málsskjölin fylla tíu möppur og þrír liggja ýmist undir sterkum eða rökstuddum grun um að hafa komið að verknaðinum með einum eða öðrum hætt.

Aðrir eru meðal annars grunaðir um önnur brot ótengd morðinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.