Óttast að ójöfnuður aukist

03.05.2021 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr - RÚV
Forseti ASÍ segir hættu á að ójöfnuður aukist enn meira eftir kórónuveirukreppuna ef ekki er rétt staðið að endurreisnaráætlunum stjórnvalda. ASÍ birti í dag ákall til frambjóðenda til Alþingis um að byggja samfélagið upp með sjálfbærni, jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi.

 

ASÍ blés til blaðamannafundar í dag þar sem kallað var eftir skýrri sýn á hvernig samfélagið verður byggt upp eftir Covid-kreppuna. Yfirskrift ákallsins er: Það er nóg til.

Drífa Snædal, forseti ASÍ segir brýnt að stjórnmálaflokkarnir hlusti á það sem stærsta verkalýðshreyfingin og stærstu hagsmunasamtök fólks eru að bera á borð. Kosningarnar eigi að snúast um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni. Á Íslandi eigi ríkustu 5% landsmanna um 40% af allri hreinni eign í samfélaginu og nýr auður rati hlutfallslega mest til hinna ríku. Í sögulegu ljósi ýti kreppur undir ójöfnuð.

„Það skiptir máli hvernig kökunni er skipt. Við erum til þess að gera með auðugt land og við ættum alveg að geta komið því þannig fyrir að enginn þurfi að líða skort. Ef að í harðbakkann slær og það þarf að herða sultarólina þá verður enn frekar fókuserað á það hvernig við dreifum gæðunum.“

ASÍ vill auka framboð húsnæðis á félagslegum grunni. Húsnæðisöryggi sé réttur allra og það eigi að heyra sögunni til að fólk þurfi að sligast undan húsnæðiskostnaði.

Beita eigi sértækum aðferðum við að skapa störf á ákveðnum landsvæðum og í ákveðnum atvinnugreinum sem hafa farið verst úr út kreppunni.

Aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu eigi að vera tryggt. Sí- og endurmenntun sé lykillinn að öflugu atvinnulífi og iðn- og tæknimenntun sé gert jafn hátt undir höfði og bóklegum greinum.

„Við vörum mjög við því að það sé farið í að skerða velferðarkerfið eða selja eigur sem við eigum sameiginlega. Við viljum hafa kosningaþátttökuna sem mesta. Við viljum að fólk gangi upplýst að kjörborðinu og kjósi með eigin hagsmunum þannig að við ætlum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í því.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV