Ofanflóðasjóður komi að flutningi frystihússins

03.05.2021 - 09:23
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Færa þarf frystihúsið á Seyðisfirði á öruggan stað vegna hættu á stórri landskriðu. Fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar vill að Ofanflóðasjóður taki þátt í kostnaði.

Yfir athafnasvæði Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði gnæfir Strandartindur og í fjallinu hanga ófallnar skriður. Frystihúsið og bræðslan, þar sem stór hluti bæjarbúa vinnur, eru á hættusvæði.

Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri og nú fulltrúi í heimastjórn telur að grípa þurfi til aðgerða. „Eftir að við sáum hvernig þessar skriður þann 18. desember léku svæðið hér innan við þá náttúrulega eru menn mjög uggandi yfir þessu svæði hér út frá. Hvort að yfirleitt fæst fólk til að vinna hérna á svæðinu því að þetta samræmist ekki öryggisstefnu virtra fyrirtækja að hafa fólk vinnandi við þessar aðstæður,“ segir Ólafur.

Gæti farið af stað á sólbjörtum sumardegi

Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hefur sagt að bregðast þurfi við og tryggja öryggi starfsmanna. Vandamálið er að lög og rýmingaráætlanir gera ráð fyrir því að hættan sé tímabundin vegna snjóflóða eða aurskriða og tengd úrkomu. Bráðnandi sífreri í Strandartindi eða svokölluð þelurð í fjallinu er ekki svo fyrirsjáanleg. „Mönnum skilst að með þelurðina að hún geti alveg eins komið af stað á sólbjörtum sumardegi. Og þá kannski eftir einhver rigningatímabil á undan. Þetta veit enginn enn þá og er ekki kannað en er vissulega gríðarleg ógn. Og það er það sem við höfum mestar áhyggjur af hérna á þessu svæði sem við erum,“ segir Ólafur

„Handónýt lög“

Lög gilda um Ofanflóðasjóð en í reglugerð er hlutverk hans þrengt og á sjóðurinn að kosta uppkaup á íbúðarhúsum. Mögulega var hugsunin sú að enginn svæfi í atvinnuhúsnæði og slíkt væri hægt að rýma. Ekki er hins vegar víst að skriða úr Strandartindi geri nein boð á undan sér. „Þannig að þarna þarf að skerpa lögin eitthvað og skoða. Miðað við aurskriður eru þetta handónýt lög. Þetta snýst meira og minna allt um snjóflóðahættu og varnir gegn snjóflóðum. Það má alls ekki gerast að menn bara ákveði það að þetta sé eingöngu til að verja íbúðasvæði það væri það versta sem gerðist af því að lögin eru enn þá þannig að það er ekkert í þeim sem stendur í vegi fyrir því að ofanflóðasjóður komi að því að verja atvinnusvæði. Ég tala nú ekki um á svæðum eins og hér þar sem við höfum ekkert val. Við getum ekki verið áfram á þessu svæði og byggt upp hér einhverja starfsemi til framtíðar. Við verðum að koma þessum fyrirtækjum á örugg svæði sem við eigum eftir í firðinum. En þetta verður ekki öðruvísi gert heldur en að það sé einhver aðkoma að þessu frá hinu opinbera líka. Það fer ekki eitthvert fyrirtæki þó það sé vel stöndugt að standa í flutningum á svona starfsemi og byggja upp nýtt frystihús öðruvísi en það komi til annars staðar fjármagn þegar þeir geta bara hreinlega farið burt með þessa starfsemi eitthvert annað. Þetta er samfélagsleg ábyrgð fyrst og fremst sem kallar á að þetta sé áfram hér á staðnum. Þeir eiga hér allan kvóta; Síldarvinnslan. Þeir eiga hér frystihús og bræðslu og við viljum allavega sjá frystihúsið hér áfram og togarann. Ég veit að það eru sterkar taugar hjá Síldarvinnslunni til Seyðisfjarðar,“ segir Ólafur Hr. Sigurðsson, fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar.

Horfa á frétt