Keppa um hver sé veikastur og í mestri bóluefnaþörf

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Daglega berast þúsund símtöl á skrifstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og fjöldinn allur á heilsugæslustövar, frá fólki sem vill komast fyrr í bólusetningu. Framkvæmdastjóri lækninga segir að svo virðist sem keppni sé hafin í því hver sé veikastur og þurfi mest á bóluefni að halda. Loka þurfti netfangi sem sett var upp fyrir fyrirspurnir, svo mikið var álagið.

Fjórir greindust með kórónuveirusmit í gær og voru þeir allir í sóttkví. Ekkert smit greindist á landamærum. Sóttvarnalæknir hefur skilað heilbrigðisráðherra minnisblaði en segir ekki tilefni til að slaka neitt að ráði á aðgerðum.

Í þessari viku er gert ráð fyrir að 25.000 verði bólusettir á landinu öllu. 

„Við erum að bólusetja stóran hóp með Pfizer og það er þá fólk með undirliggjandi sjúkdóma“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þá verður bólusett með Janssen í fyrsta skipti á miðvikudag og seinni skammtur gefinn af Moderna á fimmtudag. 

Fram hefur komið að um sextíu þúsund manns eru með undirliggjandi sjúkdóma sem auka hættuna á alvarlegri COVID-19 sýkingu. En núna hefur verið bætt við þennan hóp hátt í tuttugu þúsund manns eftir að farið var í gegnum lyfjagagnagrunninn. 

„Það sýndi sig að það vantaði dálítið þá sem eru með insúlínháða sykursýki,“ segir Sigríður Dóra.

Áhugi fólks á að komast í bólusetningu er mikill.

„Það er alveg gríðarlega mikið álag og ég vil gjarnan koma því á framfæri að biðja fólk að vera rólegt,“ segir Sigríður Dóra.

Á heimasíðu Heilsugæslunnar megi finna allar upplýsingar. 

„Og ef fólk velur að vilja eitthvert annað bóluefni en t.d. Astra Zeneca þá þarf það bara að bíða. Bara til okkar eru að koma þúsund símtöl á dag fyrir utan allt sem kemur á allar aðrar heilsugæslustöðvar.  Það dynja á okkur póstar og skilaboð. Við þurftum því miður að loka netfangi. Við erum búin að reyna að opna nokkur netföng sem áttu að vera til að létta okkur lífið. En því miður gekk það ekki og við þurftum að loka því aftur,“ segir Sigríður Dóra.

Vinnutími margra hjá heilsugæslunni fari eingöngu í að svara símtölum og fyrirspurnum. Sigríður segir nokkuð um að fólk mæti á öðrum degi en það hafi verið boðað í bólusetningu. 

„Er að reyna að velja bóluefni og það gengur ekki,“ segir Sigríður Dóra.

Reglan er sú að tíu til tólf vikur eigi að líða milli fyrri og seinni sprautu af Astra Zeneca. En fólk má mæta fyrr í seinni sprautu.

„Fólk fær seinni sprautuna eftir fjórar vikur ef það kemur. Það fær ekki jafngóða heildarvörn. En svo er þetta ansi mikil keppni í fólki um sjúkdóma, finnst manni stundum. Maður skilur ekki alveg metnaðinn í því að vera sem veikastur. En við erum mjög mikið að sjá það og biðjum fólk að vera rólegt,“ segir Sigríður Dóra.