Helmingur fullorðinna Bandaríkjamanna fengið bóluefni

epa09062584 A student, Michaela, is vaccinated against Covid-19, at the Loyal Marymount University during a vaccination campaign organized by the Department of Catholic Schools of the Archdiocese of Los Angeles, in Los Angeles, California, USA, 08 March 2021.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: epa
Um 105 milljónir manna hafa nú verið fullbólusettar í Bandaríkjunum, eða tæplega þriðjungur þessarar 330 milljóna þjóðar. Yfir helmingur allra fullorðinna Bandaríkjamanna hefur fengið einn skammt bóluefnis, samkvæmt upplýsingum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.

Mikill kraftur hefur verið í bólusetningu vestra síðustu vikur og hefur fjöldi fullbólusettra nær tvöfaldast frá því í lok mars. Mestur var gangurinn 13. apríl, þegar 3,38 milljónir bóluefnaskammta voru gefnir, samkvæmt gögnum Sóttvarnastofnunarinnar. Í síðustu viku voru daglegir skammtar að meðaltali fjórðungi færri, eða 2,55 milljónir.

Búið að dreifa 300 milljónum skammta

Föstudaginn 30. apríl var búið að dreifa 300 milljónum skammta af bóluefni um land allt, samkvæmt Jeffery D. Zients, sem stýrir viðbragðsáætlun stjórnvalda við COVID-19.

Helsta verkefnið framundan, samkvæmt New York Times, er tvíþætt. Annars vegar að ná til fólks sem ýmist er hikandi eða hreint og beint tortryggið gagnvart bólusetningu og sannfæra það um ágæti hennar. Og hins vegar að auðvelda því fólki að komast í bólusetningu sem gjarnan vill láta bólusetja sig en á erfitt með það ýmsum og ólíkum ástæðum.

Þetta síðarnefnda var ástæða þess að Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hvatti á dögunum vinnuveitendur til að leyfa starfsfólki sínu að láta bólusetja sig á vinnutíma, án launaskerðingar.