Hættusvæðið verður líklega stækkað í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Verið er að endurmeta hættusvæðið við eldgosið í Geldingadölum, eftir að fólk fékk yfir sig gjósku næst gígnum í gær. Líklegt er að hættusvæðið verða stækkað.

„Það virðist vera að malla hægt og rólega í gígnum sjálfum og inn á milli koma svo rosalega háir strókar sem eru 100 til 200 metra háir. Og það þeytist efni í nærumhverfið við það líka. Og tungan sem rennur niður í Meradali, eða byrjaði á því um daginn, hún rennur áfram þar hægt og rólega í þá átt,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sem var við gosstöðvarnar í nótt.

Hægt að fara í aðra brekku

Bjarki segir að á þessu stigi sé ekki hægt að segja til um hvort hraunflæðið frá gosinu sé að aukast. Unnið er að því að endurmeta hættusvæðið í kringum gíginn eftir að töluvert gjóskufall varð upp við hann í gær. Bjarki segir að von sé á nýju hættumati síðar í dag.

„Og líklega verður svæðið alveg upp við gíginn skilgreint sem hættusvæði og líklega verða það einhverjir 100 til 500 metrar sem það verður gert. En það er alveg hægt að fara í næstu brekku austar. Ég var að horfa á þetta í nótt og það var mjög fínt að horfa á þetta þar líka,“ segir Bjarki.