Glíma við kvíða og sjálfsvígshugsanir eftir OnlyFans

03.05.2021 - 20:59
Klara Sif Magnúsdóttir selur kynlífsþjónustu á OnlyFans, allt frá ljósmyndum af sér í nærfötum, yfir í klámmyndbönd, bæði ein og með öðrum. Rætt var við hana í Kastljósi í kvöld þar sem hún sagðist næstum bara hafa jákvæða reynslu af OnlyFans. Síðar í þættinum var rætt við Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta, en samtökin hafa varað fólk við að fara út á þessar brautir. 

Þó nokkur fjöldi Íslendinga framleiðir klám heima hjá sér og deilir á samfélagsmiðlinum OnlyFans, og margir eru ófeimnir við að tjá sig um það. Umræðan um OnlyFans snýst að miklu leyti um mörk og valdeflingu, að fólk taki sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um að selja kynlífsþjónustu og hversu langt það vilji ganga. Mikið hefur verið fjallað um OnlyFans á miðlum eins og TikTok og Instagram, miðlum sem börn og unglingar nota mikið, og þar virðist jákvæðum skilaboðum um klám vera haldið á lofti. 

„Ég get ekki tekið 100 prósent ábyrgð“

Þegar Klara er spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að með því að kynna efnið á TikTok og Instagram kunni hún að hafa áhrif á börn segist hún einstaka sinnum fá fyrirspurnir um starfið frá krökkum undir aldri. Þá leggi hún áherslu á að hver þurfi að taka ákvörðun um það fyrir sig hvort klám henti honum, þegar hann hefur aldur til. 

„En ég ætti ekkert að vera með alla þessa ábyrgð fyrir þessa krakka því þau eiga foreldra sem ber skylda til að fræða börnin sín. Ég get ekki tekið þessa ábyrgð 100 prósent. Ég get bara talað frá minni eigin upplifun,“ segir hún. 

Þér líður vel í þessu og heldur að þú munir ekki sjá eftir þessu?

„Nei, ég tek allar mínar ákvarðanir og vil meina að jafnvel þótt ég taki slæma ákvörðun þá þarf ég bara að eiga það við sjálfa mig og vinna úr því. Það er það eina sem maður getur gert. Jafnvel þótt ég hugsi „úff“ þegar ég verð eldri, þá þarf ég bara að vera stolt af því að ég hafi tekið þessa ákvörðun og verið 100 prósent í þessu.“

Þunglyndi, sektarkennd og sjálfsvígshugleiðingar

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að þangað leiti fjöldi fólks sem glímir við erfiðar afleiðingar þess að hafa selt kynlífsþjónustu.

Hún segist þó gleðjast yfir því að reynsla Klöru Sifjar sé jákvæð: „Og auðvitað get ég ekki fullyrt um alla sem taka þátt í OnlyFans eða í öðrum klám- eða vændisiðnaði. Á Stígamótum hittum við mikið af fólki með þessa reynslu og þar erum við að fást við mjög alvarlegar afleiðingar. Við erum yfirleitt ekki að fást við eftirsjá, fólk sér ekki endilega eftir að hafa gert eitthvað. Það er að koma því það er uppfullt af kvíða og þunglyndi, sektarkennd og sjálfsvígshugleiðingum, átröskun, sjálfsskaða og svoleiðis. Það er að fást við andlegar afleiðingar af því að hafa verið í þessum bransa, því það upplifir þetta sem ofbeldi og afmennskun,“ segir hún

Jafnvel þótt það upplifi það á meðan það tekur þátt í þessu að þetta sé allt á þeirra eigin forsendum?

„Já, það er gjarnan þannig. Auðvitað eru forsendurnar mismunandi, sumir eru neyddir inn í þetta, aðrir neyðast inn í þetta af einhverjum ástæðum. Aðrir taka þessa ákvörðun og upplifa valdeflingu, sérstaklega til að byrja með. Fólk upplifir stjórn og að hafa völd og fá peninga út úr þessu. En þegar við hittum þau á Stígamótum er það yfirleitt því þau eru farin að upplifa aðrar afleiðingar í kjölfarið. Þau eru farin að finna fyrir tilfinningalegum doða, þau eru farin að fjarlægjast líkama sinn og svo framvegis. Þannig að reynslurnar eru margar og ólíkar en við höfum séð allt litrófið af því,“ svarar Steinunn.

Hætta sé á að fólk finni fyrir þrýstingi til að ganga lengra og lengra til þess að viðhalda kúnnum. Í lokin hafi fólk yfirleitt farið út fyrir alla þá ramma sem það hafði séð fyrir sér í upphafi. „Fólk fer inn í þetta með alls konar hugmyndir um mörk og samþykki, og það var síðan allt saman brotið á bak aftur,“ segir Steinunn. 

Hún segir skömmina sem fylgi klámi vera slíka að fólk sé iðulega búið að vera í viðtölum hjá Stígamótum í langan tíma vegna annars kynferðisofbeldis þegar það loksins tekur skrefið og segir frá því að það hafi tekið þátt í klámi eða vændi.

Börn þurfi að vita af afleiðingunum

Steinunn leggur áherslu á að ungt fólk sem að íhugi að stíga inn í þennan heim þurfi að hafa góðar upplýsingar til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Það þurfi að vita af hugsanlegum afleiðingum, og vita af því að það gæti upplifað þunglyndi og kvíða í kjölfarið.

Börn haldi gjarnan að það sé ekkert mál að selja kynlífsþjónustu, þetta séu bara auðveldir peningar: „Ekki síst börn á jaðrinum, sem þyrftu mestan stuðning og ég hugsa að þau gætu upplifað þetta sem jákvæða athygli en séu útsettust fyrir neikvæðum afleiðingum.“ Foreldrar þurfi því að upplýsa börn og unglinga, ekki lengur bara um klámneyslu heldur líka sölu og framleiðslu. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV