Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fylgi Vinstri grænna eykst og fylgi Miðflokksins dvínar

03.05.2021 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fylgi Vinstri grænna eykst um rúmlega tvö prósentustig milli mánaða samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og fylgi Miðflokksins minnkar um rúmlega eitt prósentustig. Ríflega 14 prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn, færu kosningar til Alþingis fram í dag, og rúmlega 8 prósent segjast myndu kjósa Miðflokkinn.

Fylgi annarra flokka helst nokkuð stöðugt milli mánaða. Nær 24 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 12 prósent Samfylkinguna og Pírata, liðlega 10 prósent Framsóknarflokkinn, tæplega 10 prósent Viðreisn, 5 prósent Sósíalistaflokk Íslands og tæplega 5 prósent Flokk fólksins.

Ríkisstjórnin héldi velli

Samkvæmt þessu fengi Sjálfstæðisflokkurinn 17 þingmenn, Vinstri grænir níu, Píratar átta, Framsókn og Samfylkingin fengju hvor um sig sjö og Viðreisn sex. Miðflokkurinn fengi fimm þingmenn, Sósíalistaflokkur Íslands þrjá og Flokkur fólksins einn. Samkvæmt þessu héldi ríkisstjórnin velli með 33 þingmenn, jafnmarga og hún hefur nú. 

Kjördæmakjörnir þingmenn myndu raðast með eftirfarandi hætti, án uppbótarsæta: 

  B D S V P C F M J
RVK s. 1 3 1 2 1 1      
RVK n.   2 1 2 2 1     1
Suðv. 1 5 1 1 1 1   1  
Norðv. 2 2   1 1     1  
Norða. 2 2 1 2 1     1  
Suður 1 3 1 1 1   1 1  
Samt. 7 17 5 9 7 3 1 4 1

 

Hafa ber þó í huga að niðurstöðurnar fyrir hvert kjördæmi eru ekki eins marktækar og niðurstöðurnar alls þar sem úrtakið er lítið í hverju kjördæmi.

Ríflega 10 prósent taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp og 8 prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa.

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist um 0,4 prósentustig milli mánaða og nær 61 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina. Það er mun fleiri en þeir sem segjast styðja einhvern af stjórnarflokkunum þremur en fylgi þeirra er 48 prósent samtals.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallup

Þjóðarpúls Gallup 3. maí 2021 samanborið við síðasta Þjóðarpúls og kosningaúrslit 2017.

D
Kosningar
25,3%
Mars 2021
23,0%
Apríl 2021
23,8%
V
16,9%
12,3%
14,3%
S
12,1%
12,7%
12,0%
P
9,2%
11,5%
12,0%
B
10,7%
11,1%
10,1%
C
6,7%
9,5%
9,6%
M
10,9%
9,5%
8,2%
J
0%
5,0%
5,0%
F
6,9%
5,0%
4,7%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. mars til 2. maí 2021. Heildarúrtaksstærð var 10.740 og þátttökuhlutfall var 51,4%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,2%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.