Fordæma framgöngu Samherja og styðja fréttamenn

03.05.2021 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Samtök namibískra fjölmiðlamanna lýsa samstöðu með íslenskum fréttamönnum og fordæma framgöngu Samherja gagnvart fréttamönnum sem fjallað hafa um fyrirtækið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis.

Í yfirlýsingunni segir að íslenskir fréttamenn sem fjallað hafa um ásakanir á hendur Samherja hafi orðið fyrir samfelldri herferð yfirgangs og áreitni. Namibísku fjölmiðlasamtökin taka fram að Samherji hafi rétt á að verja sig en hvetur fyrirtækið til að hætta strax áreitni í garð fjölmiðlamanna. Þar er tiltekið að fyrirtækið hafi dreift röngum upplýsingum, birt árásarmyndbönd og fréttamenn orðið fyrir beinni áreitni í tilraunum til að þagga niður í umfjöllun um meinta spillingu Samherja í Namibíu.

Namibísku fjölmiðlasamtökin skora jafnframt á vinnuveitendur fréttamanna og þar til bær yfirvöld. Þau eigi að gera sitt besta til að tryggja að fréttamenn geti haldið áfram að vinna í almannaþágu að því að fletta ofan af spillingu. „Fréttamenn ættu einnig að hafa rétt til að verja sjálfa sig gegn árásum Samherja á sínum eigin samfélagsmiðlum,“ segir í yfirlýsingu namibísku samtakanna. Þar er vísað til siðareglna starfsmanna RÚV og úrskurðar siðanefndar. Að lokum er skorað á fréttamenn um allan heim að veita íslenskum kollegum sínum stuðning og fordæma ógnvekjandi tilburði fyrirtækja.