Fór í sóttkví og endaði með hestasundlaug

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Fór í sóttkví og endaði með hestasundlaug

03.05.2021 - 10:34

Höfundar

Gréta V. Guðmundsdóttir og maðurinn hennar, Steinar Sigurðsson, létu gamlan draum rætast í fyrra. Þau seldu íbúðirnar sínar, hesthús og fleira og sameinuðust á jörð í Ásahreppi þar sem þau gátu bæði sinnt störfum sínum og áhugamálum, hann sem jeppakall og hún sem hönnuður en bæði eru þau mikið hestafólk. Þau hafa síðustu mánuði komið sér fyrir og tekið hitt og þetta í gegn.

Að auki var þarna fyrir hestasundlaug, sú eina sinnar tegundar á landinu. 

„Þegar við komum hérna fyrst rak okkur í rogastans að sjá þetta mannvirki. Þannig að við fórum að fræðast og tala við fagfólk um þetta og allir sem við töluðum við sögðu að hestasund væri gríðarlega gott fyrir hesta, þannig við færðum okkur alltaf lengra og lengra og erum að vinna með dýralæknum sem hjálpa okkur áfram í þessu,“ segir Gréta. Hún lýsir nýja lífinu í sveitinni með stjörnur í augum og það gerir Steinar líka. 

 „Þetta er bara geggjað, við fáum morgunsólina inn um svefnherbergisgluggann, maður opnar og horfir á hrossin sín fyrir utan og hugsar bara: Hvert er ég kominn? Þetta er bara paradís, algjör. Þannig að ég bara mæli með þessu, sterkt. Að láta draumana rætast, að elta þá. Ég ætla ekki að sitja á elliheimilinu og segja: Æjj, ég hefði nú átt að flytja í sveit. Því ég get líka alltaf farið úr sveitinni í bæinn.“