„Félagsleg undirboð koma náttúrulega aldrei til greina“

03.05.2021 - 11:36
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafnar því að ný reglugerð um vinnustaðanám iðnnema ryðji braut félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði. Hún segir að það sé nægur tími til stefnu til að breyta reglugerðinni og ræða hana frekar við hagaðila.

Lilja skrifaði undir reglugerðina í síðasta mánuði og hún tekur gildi 1. ágúst. Með breytingunum bera skólarnir ábyrgð á að finna vinnustað þar sem neminn fær leiðsögn og æfingu í stað þess að nemandi þurfi sjálfur að komast á samning. Takist skóla ekki að koma nemanda á samning hjá iðnmeistara þarf skólinn að sjá til þess að neminn fái nauðsynlega þjálfun á einum eða fleiri vinnustöðum.

Félag iðn- og tæknigreina gagnrýndi menntamálaráðherra í síðustu viku fyrir samráðsleysi við gerð breytinganna og benti á að meistarakerfið hefði gegnt lykilhlutverki í menntun iðn- og tækninema á Íslandi og skilað þjóðinni iðnaðarmönnum í fremstu röð. Hætta sé á að undan því kerfi verði grafið og fagmennsku fórnað ef ekki verður vandað betur til verka þegar kemur að breytingunum.

„Ég fagna þessum athugasemdum og hef sett mitt fólk í að hugsa hvað við þurfum að fínpússa og hvað við þurfum að laga. Þess vegna gáfum við okkur þennan tíma. Það var skrifað undir reglugerðina 22. febrúar en hún tekur ekki gildi fyrr en 1. ágúst, meðal annars vegna þess að þetta er stórt mengi og það er mikilvægt að hlusta,“ segir Lilja.

Félag iðn- og tæknigreina sagði jafnframt að útlit væri fyrir að nemendum, sem ekki komast á hefðbundinn samning, verði gert að vinna kauplaust fyrir fyrirtæki. Þannig væri verið að ryðja braut félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði, í boði menntamálaráðherra.

„Það kemur náttúrulega aldrei til greina,“ segir Lilja. Með breytingunum sé nemandinn fyrst og fremst í námi og ekki í vinnu til lengri tíma. „Við förum yfir það en félagsleg undirboð koma náttúrulega aldrei til greina. Við höfum eftirlit með því. Það er okkar skylda þannig að ég hlusta á þessar athugasemdir að sjálfsögðu og við gerum kerfið þá þannig að það sé útilokað,“ segir hún.