Ellefu tímar af sveiflukenndu eldgosi á þremur mínútum

Mynd: Vefmyndavél / RÚV
Eldgosið á Reykjanesskaga hefur verið sveflukennt í dag líkt og í gær. Miklir kvikustrókar tóku þá að gjósa mun hærra upp úr gígnum en áður hafði sést, allt að 200 metra upp í loftið, með drjúgum hléum inn á milli, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði sem tekið var frá því á tíunda tímanum í gærkvöldi og til klukkan rúmlega átta í morgun, og er sýnt á miklum hraða.

Unnið er að því að endurmeta hættusvæðið í kringum gíginn eftir að töluvert gjóskufall varð upp við hann í gær. Til stóð að ljúka því í dag en Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við fréttastofu síðdegis að það hafi ekki tekist, en til standi að ljúka því á morgun. Líklegt er að svæðið 100 til 500 metra frá gígnum verði skilgreint sem hættusvæði.