Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

DNB fær himinháa sekt – gagnrýndur fyrir Samherja

03.05.2021 - 07:31
epa07645118 Kerstin Braathen arrives for a press conference after Norwegian Bank DNB has appointed her as new Group's Chief Executive of DNB in Oslo, Norway, 13 June 2019. Present CEO Rune Bjerke will resign from his role on 01 September 2019, after nearly 13 years as head of DNB.  EPA-EFE/Terje Bendiksby Norway out! NORWAY OUT
Kjersting Braathen, forstjóri norska DNB bankans. Mynd: EPA - RÚV
Norska fjármálaeftirlitið hefur sektað norska bankann DNB um 400 milljónir norskra króna, jafnvirði um það bil sex milljarða króna, fyrir slælega framfylgd laga um eftirlit með peningaþvætti, meðal annars í tengslum við viðskipti fyrirtækja í eigu Samherja við bankann

Bankinn ætlar ekki að áfrýja úrskurði fjármálaeftirlitsins, hefur þegar tilkynnt sektina til norsku kauphallarinnar og bókfært hana í sínu bókhaldi.

Bankinn fær harða gagnrýni í skýrslu fjármálaeftirlitsins sem segir að rannsókn, sem gerð var á starfsemi bankans í febrúar í fyrra, hafi sýnt að mikið vantaði upp á að hann framfylgdi lögum um eftirlit með peningaþvætti.

Framhaldsrannsókn í fyrravor þar sem farið var ofan í saumana á viðskiptum fyrirtækja innan Samherjasamsteypunnar hafi einnig leitt alvarlegar brotalamir í ljós. Vegna þessa hafi eftirlitið metið það svo að 400 milljóna króna sekt væri við hæfi.

Bankinn segir sjálfur í tilkynningu til Kauphallarinnar að í skýrslu fjármálaeftirlitsins komi fram að nauðsynlegar upplýsingar hafi vantað um sex fyrirtæki í tengslum við rannsókn á máli Samherja. Bankinn sé þessu sammála og segir að við innri rannsókn hafi sömu veikleikar komið fram. 

Fram kemur í tilkynningu fjármálaeftirlitsins að það hefði gert skýrslu um Samherjamálið í desember á síðasta ári. Hún var birt í morgun. Flest þau brot sem þar var fjallað um eru annað hvort fyrnd eða framin í tíð fyrri laga um peningaþvætti.  

Í tilkynningunni segir einnig að bæði fjármálaeftirlitið og efnahagsbrotadeild  hafi verið að rannsaka sömu þætti. Rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar hafi verið flutt yfir til embættis ríkissaksóknara í Ósló sem ákvað að fella málið niður hjá sér en senda öll gögn til fjármálaeftirlitsins. Mat ríkissaksóknara var að málið ætti frekar heima hjá eftirlitsstofnun.

Fjármálaeftirlitið segir að rannsókninni hafi fylgt mikið af gögnum sem það hefði ekki séð áður, meðal annars yfirheyrslur yfir ákveðnum einstaklingum.  Engu að síður er það mat eftirlitsins að þau brot sem ekki var fjallað um í skýrslu þess í desember séu ýmist fyrnd eða framin á gildistíma fyrri laga þar sem ekki var kveðið á um sektarheimildir. Þau séu því ekki hluti af þeirri sekt sem lögð var á bankann í morgun.

DNB segir í yfirlýsingu að hann taki þessa gagnrýni alvarlega en tekur fram að bankinn sjálfur sé ekki grunaður um peningaþvætti eða hlutdeild í peningaþvætti. „Við verðum að þekkja okkar viðskiptavini og höfum innleitt það í okkar kerfum að allt sem þykir grunsamlegt er tilkynnt til efnahagsbrotadeildarinnar,“ segir Kjerstin Braathen, forstjóri DNB.

Fjármálaeftirlitið beinir spjótum sínum sérstaklega að stjórn bankans og stjórnendum og segir að ekki hafi verið lögð nægileg áhersla á aðgerðir gegn peningaþvætti.  Þá hafi viðbrögð bankans við þeim brotalömum sem bent hafi verið á ekki verið fullnægjandi. Því er bankinn ósammála ef marka má tilkynningu hans til Kauphallarinnar.

Rétt er að taka fram að norska fjármálaeftirlitið leggur ekki mat á það hvort einstök fyrirtækið, Samherji þar með talinn,  hafi brotið lög enda fjalla skýrslurnar einvörðungu um brotalamir í eftirlitskerfi bankans.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV