Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Appollónísku og díónýsísku hliðar mannsandans fangaðar

Mynd: RÚV / RÚV

Appollónísku og díónýsísku hliðar mannsandans fangaðar

03.05.2021 - 16:00

Höfundar

Snæbjörn Brynjarsson leikhúsgagnrýnandi Víðsjár fjallar um leikritið Haukur og Lilja eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sem frumsýnt var í Ásmundarsal í síðustu viku.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Hvað er ástin? Ef eitthvað er að marka orð Sókratesar í bókinni Fædros, sem lærisveinn hans Platón ritaði, þá mun afi vestrænnar heimspeki hafa velt því fyrir sér hvort ástin væri ekki einhvers konar guðdómleg vitfirring sem kemur yfir mann þegar maður sér fegurðina. Það er frekar ólíkt þeirri mynd sem Sókrates dregur upp af ástinni í Samræðunum, þar sem sami maður, glímukappinn og heimspekingurinn Platón, leggur meistara sínum orð í munn. Þá er ástin orðin að Erosi, nærri dýrslegum losta og þrá.

Það mætti segja að þessar tvær kenningar um ástina séu áberandi í leikritinu Haukur og Lilja – opnun, fimmtíu mínútna leikverki eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, sem frumsýnt var í síðustu viku í Ásmundarsal. Elísabet verður að vísu seint kölluð platónskt skáld, þó hún sé Grikklandi kunnug, því hennar verk eru stútfull af tilfinningasemi og öðru brjálæði sem Platón hefði gjarnan viljað úthýsa úr fyrirmyndarríki sínu. Platón og Sókrates hefðu sennilega flokkað Elísabetu með málurum, leikurum og öðrum vitfirringum, sem líkja eftir og fylla alþýðuna ótta við dauðann og hvetja til ýmiss konar hegðunar sem er síður en svo til fyrirmyndar.

Ástin er opnun, segir í leikritinu, sem er býsna opið fyrir túlkunum, en í öllu falli eru þessar persónur stútfullar af guðdómlegu brjálæði og dýrslegum losta eins og í mörgum verkum Elísabetar og þó Haukur og Lilja hafi bæði sínar efasemdir um ástina virðast þau leita að staðfestingu á tilvist sinni í gegnum ást sína á hvort öðru.

María Reyndal leikstýrir þeim Eddu Björgu Eyjólfsdóttur og Sveini Ólafi Gunnarssyni, en staðsetning leiksýningarinnar er Freyjugata 41, betur þekkt sem Ásmundarsalur.

Þetta fúnkishús var ávallt ætlað undir menningarstarf þó svo leikhús hafi sennilega ekki verið Sigurði Guðmundssyni arkitekt ofarlega í huga þegar hann hannaði það til að hýsa vinnustofu Ásmundar Sveinssonar og Gunnfríðar Jónsdóttur. Það er nú ekki meiningin að rekja sögu byggingarinnar, sem í dag hýsir gallerí og kaffihús; sögufrægar sýningar, prentsmiðjur eða myndlistarskóla sem voru þar; en látum duga að segja að rýmin voru hönnuð til að hleypa inn birtu og magna hana upp. Með öðrum orðum þá er salurinn á efri hæðinni, þar sem Haukur og Lilja eru sýnd, ekki hefðbundið svartmálað svið, heldur bogalagað hvítt rými með stóra glugga sem hleypa inn birtu. Æðislegt rými til að virða fyrir sér málverk en með ýmsar áskoranir þegar kemur að leiksýningum.

Þess vegna byrjum við þessa rýni á að ræða ljósið. Vanalega er ljósahönnun nefnd í framhjáhlaupi þegar búið er að gefa leikurum einkunnir og rekja söguþráð leikritsins án þess að gefa of mikið upp en í þessu tilviki er óhætt að byrja á öfugum enda því fjólubláu, gulu, grænu og bláu geislarnir sem varpast upp á hvíta veggina í salnum eru þriðja stjarna verksins, og það verður að gefa Ólafi Ágústi Stefánssyni hrós fyrir vel unna vinnu. Síbreytileg lýsingin læðist ekki fram hjá, heldur æpir, en þetta er líka verk með djúpum lægðum og stórum tilfinningasveiflum, sem kalla á öfgafull litbrigði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í römmum á veggjum eru tilvitnanir í sjálft verkið.

Leikmynd Maríu Th. Ólafsdóttur er einföld. Það eru stöplar á gólfinu, rammar á veggjunum, allt eitthvað sem maður myndi búast við að sjá við opnun myndlistarsýningar, og í römmunum eru tilvitnanir í sjálft leikverkið, sem á margar safaríkar línur. Það er spurning hvort með því sé verið að reiða sig um of á texta skáldsins, hvort rammarnir hefðu verið betri tómir, en það var í það minnsta ókostur að í sumum prentverkanna voru sömu línur endurteknar. Þá hefði jafnvel verið sniðugt að leita út fyrir þetta höfundarverk og ræna jafnvel úr einhverjum ljóðabókum eftir Elísabetu til þess að rugla okkur áhorfendur aðeins í ríminu. En þessi einfalda leikmynd leynir þó á sér, ég kímdi örlítið þegar ég sá hundinn á leiðinni út, og þetta verk í þessum sal kallar mjög svo á nálgun Maríu. Búningar hennar eru líka sniðug lausn og leyfa lýsingu og leikurum að njóta sín.

Þegar áhorfendur komu upp tröppurnar og inn í látlausa leikmyndina í björtum salnum tóku á móti þeim dillandi djasskenndir kontrabassatónar og trommutaktur, sem mynduðu menningarlegt andrúmsloft. Tilfinningin var svo sannarlega nær því að vera við opnun í myndlistarsal en á hátíðlegri leiksýningu, þó hátíðleikinn væri til staðar. Til að byrja með stendur Lilja, leikin af Eddu Björgu, ein í hvítum kjól, þar til Haukur, túlkaður af Sveini Ólafi, ryðst móður og másandi inn, flýtir sér í skó og fær sér í glas. Hann er að koma heim, en þau eiga að vera mætt. Edda Björg og Sveinn eru gott sviðspar, þau passa vel saman og í þessi hlutverk, sem tveir drama-fíklar háðir því að kvelja hvor annan í von um að staðfesta einhvern veginn að ástin sé enn til staðar. Haukur vill að þau fari út, mæti í veisluna sem þeim var boðið í, hundrað manna hátíð sem systir hans heldur árlega, en Lilja er kvíðin og óákveðin. Hún er óviss um í hvaða kjól hún eigi að fara, og fær aldrei þá staðfestingu frá Hauki sem hún virðist þrá. Það er þó meira í húfi og á endanum ekki víst hvort Haukur raunverulega þráir að komast út úr húsi. Hans karakter er dularfyllri en Lilju, enda hittir hann ekki sálfræðing eins og hún, dæmigerður karlmaður sem finnst ekkert vandamál nógu stórt til að leita sér hjálpar.

Bæði Sveinn og Edda eru gott val í þessi hlutverk en hófstilltari og látlausari leikur hefði hæft betur texta sem er jafn tilfinningahlaðinn og ljóðrænn og leikrit Elísabetar.

Það er til siðs að ræða leikritið, sérstaklega þegar um frumflutning er að ræða. Haukur og Lilja er skrifað 2004. Það náði þó ekki umsvifalaust á svið heldur rataði, eins og mjög mörg ný íslensk leikrit, í leiklestur í Þjóðleikhúsinu og þaðan aftur ofan í skúffu, þar til sex árum síðar að það var tekið upp af Útvarpsleikhúsinu í leikstjórn Steinunnar Knútsdóttur. Það vill reyndar svo skemmtilega til að í hlutverki Hauks var þá einmitt Sveinn Ólafur eins og nú. Síðan liðu ellefu ár og sennilega passar Sveinn betur í hlutverk Hauks nú en þá en það er sjaldgæft að leikverk ætluð sviði fái að snúa aftur úr dýflissu útvarps og leiklestra. Sem betur fer virðist leiklistarheimurinn á Íslandi hafa enduruppgötvað Elísabetu eftir forsetaframboð hennar, í það minnsta hafa sjálfstæðir leikhópar verið duglegir að setja upp verk hennar, en maður spyr sig hvort það sé ekki kominn tími til að annað stofnanaleikhúsanna, hvort sem það verður Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið, geri ekki einu af okkar mikilvægustu leikskáldum betri skil. Því svo ég vitni aftur í þá félaga Sókrates og Platón, sálin er eins og vagn dreginn áfram af tveimur hestum, annar trylltur gæðingur og hinn stilltur geldingur, en að mínu mati eru fáir pennar sem gera sveiflunum milli þessara tveggja hesta jafngóð skil og Elísabet. Allt frá stjörnum í augum, hita í brjósti, fiðringi í maga, báli í mjöðmum, straumi í kynfærin og skjálfta í hnén, yfir í hinn óbærilega, útlæga leiða sem við höfum bannað í samfélaginu en þurfum stundum sárlega á að halda.

Leikritið fangar ágætlega þessar appollónísku og díónýsísku hliðar mannsandans sem Grikkirnir þekktu til en er kannski full stutt og því skiljanlegt að leikarar og leikstjóri reyni að fá sem mestan tilfinngaofsa úr sem fæstum línum. Þið ættuð samt öll að kaupa miða og skella ykkur, kaupa kaffi eða hvítvínsglas og njóta birtunnar í einu fallegasta fúnkishúsi Íslands.