Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíðin batnar í ferðaþjónustu

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
130 farþegar komu hingað frá Bandaríkjunum með fyrsta áætlunarflugi flugfélagsins Delta í morgun. Hjólin eru aðeins farin að snúast, segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Forstjóri Icelandair segir mjög jákvætt að líf sé að færast í markaðinn, sérstaklega frá Bandaríkjunum. 

Boeing 757 vél Delta flugfélagsins lenti fyrir klukkan átta í morgun á Keflavíkurflugvelli og er fyrsta vélin í áætlunarflugi frá Ameríku í rúmt ár fyrir utan flugvélar Icelandair en Boston flug hefur á áætlun Icelandair allan faraldurinn. 

Frá 6. apríl hefur bólusettum Bandaríkjamönnum verið heimiluð koma hingað til lands. Allir farþegarnir í morgun voru skimaðir við komu og þurftu að framvísa vottorði um bólusetningu eða afstaðna COVID-sýkingu. 

Delta verður með daglegt flug frá New York til Keflavíkur, Boston bætist við 20. maí og Minneapolis þann 27. Í júní byrja United Airlines að fljúga hingað frá New York og Chicago bætist við í júlí. Air Canada hyggur líka á áætlunarflug. Icelandair verður með tíðastar ferðir vestur um haf og flýgur til ellefu borga í Bandaríkjunum og Kanada. 

Flestir ferðamennirnir sem komu í dag ætluðu að skoða landið, fara að gosinu og stunda útivist. Einn ætlaði að skrifa skáldsögu og önnur ætlaði að sinna myndlist í Reykjavík.

„Hjólin eru aðeins farin að snúast,“ segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, „nú sjáum við það hverju það skilar að bólusetningar bæði hér og í löndunum í kringum okkur eru farnar að ganga betur og hraðar. Og áhuginn frá til dæmis Bandaríkjamönnum sem eru  orðnir bólusettir eða hafa fengið Covid áður er töluverður. Þannig að já ég vonast til þess að núna svona séu þetta merki um það að ferðamannasumarið sé að hefjast.“

Jóhannes Þór á von á að straumurinn komi til að byrja með frá Bandaríkjunum hingað og ef til vill frá Bretlandi undir mánaðamótin, en heldur sé lengra í bókanir frá meginlandi Evrópu. 

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group hf. segir að nú séu hjólin a.m.k. farin að snúast: 
„Hjólin eru amk farin að snúast. Við erum að sjá bókanir. Þetta er búið að vera náttúrulega mjög veikt í heilt ár. En núna er komið eitthvað líf í þetta sérstaklega frá Bandaríkjunum. Og við erum að sjá bókanir þaðan og söluátak sem við höfum farið í í Bandaríkjunum hefur gengið mjög vel.“

Bogi Nils segir að á mörkuðum í Evrópu og í Kanada sé ekki mikið um bókanir en þar sé þó mikill áhugi á Íslandi en bólusetningar komnar skemmra á veg. Afkoma Icelandair var þó góð fyrsta fjórðung ársins: 

„Verulegur bati á milli ára á fyrsta ársfjórðungi núna sem er mjög ánægjulegt og búin meira að segja að gera betur heldur en á árinu 2019 á fyrsta ársfjórðungi en þetta er enn mjög krefjandi umhverfi fyrir flugfélög um allan heim og ferðaþjónustufyrirtæki en mjög jákvætt að hlutirnir séu eitthvað að fara í gang.“