Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Talsverð aukning í sölu nýrra bíla í aprílmánuði

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Sala nýrra bíla í landinu virðist vera að glæðast ef marka má tölur Bílgreinasambandsins fyrir aprílmánuð. Almenningur og fyrirtæki keyptu um 110% fleiri bíla nú en í fyrra og sala til bílaleiga margfaldaðist.

Heildaraukningin í sölu nýrra bíla fyrstu fjóra mánuði ársins nemur 0,6% samanborið við sama tíma á síðasta ári. Alls var skráður 781 nýr fólksbíll á Íslandi í apríl nú en 372 í fyrra.

Alls seldust sautján fleiri nýir bílar það sem af er ári en í fyrra, 2.870 nú en 2.853 árið 2020. Í tilkynningu Bílgreinasambandsins segir jafnframt að einstaklingar hafi keypt 379 fólksbíla í apríl núna en 269 á liðnu ári.

Því er aukning í sölu til almennings 40,9% milli ára. Yfir 65% nýrra bíla eru svokallaðir nýorkubílar en hlutfallið var 61% á sama tíma fyrir ári. Fyrirtæki keyptu nú tvöfalt fleiri bíla í apríl en í fyrra eða 140 nú á móti 70 þá.

Heildaraukning á sölu bíla til fyrirtækja nemur því um níu af hundraði. Sala til bílaleiga hefur einnig glæðst verulega en þær keyptu 260 bíla í apríl á móti 30 á liðnu ári. Heildarsalan til bílaleiganna er þó ögn minni það sem af er þessu ári en var 2020.