Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sóttvarnaaðgerðum mótmælt í þremur heimsálfum

epa09172208 Police uses water cannons to disperse people gathering to protest against the government-imposed anti-Covid measures during an unauthorized event dubbed 'La Boum 2' in Brussels, Belgium, 01 May 2021.  The first 'La Boum' on 01 April resulted in massive clashed with police.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lokunum, fjöldatakmörkunum og hvers kyns hömlum sem ætlað er að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar og COVID-19 var mótmælt í minnst þremur heimsálfum í dag.

Mótmælt í Kanada, Brasilíu og Belgíu

Tugir þúsunda gengu fylktu liði að ólympíuleikvanginum í Montreal í Kanada til að mótmæla grímuskyldu, útgöngubanni um nætur og kröfum um heilbrigðisvottorð.

Í nokkrum borgum Brasilíu söfnuðust nokkur þúsund stuðningsmanna Jairs Bolsonaros saman til að lýsa hvort tveggja stuðningi við forsetann sjálfan og gagnrýni hans á sóttvarnaaðgerðir og takmarkanir sem innleiddar hafa verið í einstaka borgum og ríkjum landsins.

Og í Brussel mættu á annað þúsund belgískra ungmenna á óformlega úthátíð í almenningsgarði í borginni, sem boðað var til á samfélagsmiðlum.

30.000 mótmæltu í Montreal

Fjölmennust voru mótmælin í Montreal þar sem allt að 30.000 manns, sem fæst hirtu um grímuskyldu og fjarlægðarmörk, söfnuðust saman við ólympíuleikvanginn í borginni. Hann gegnir um þessar mundir sama hlutverki og Laugardalshöllin hér á landi, og er ein stærsta bólusetningarmiðstöð Kanada. Aflýsa þurfti öllum bólusetningum þar í dag vegna mótmælanna.

Lýstu stuðningi við Bolsonaro

Í Brasilíu voru mótmælin - eða stuðningsgöngur fylgjenda Bolsonaros - öllu fámennari. Fjölmennastar voru þær í Rio de Janeiro og Sao Paulo, þar sem upp undir þúsund manns söfnuðust saman á hvorum stað. Bolsonaro hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir framgöngu sína í baráttunni við farsóttina, sem sögð er auka á hörmungarnar frekar en lina þær.

Forsetinn er afar mótfallinn sóttvarnaaðgerðum hinna einstöku ríkja og borga landsins, sem hann segir valda efnahagskreppu sem skaði þjóðina meira en farsóttin. Fyrir tveimur vikum sagðist hann vera að „bíða eftir merki frá fólkinu" áður en hann „gripi til aðgerða" til að afnema óásættanlegar hömlur sem  hinir ýmsu ríkis- og borgarstjórar íþyngdu borgurunum með.

Fyrir nokkrum dögum ýjaði forsetinn að því í sjónvarpsviðtali, að herinn „gæti farið út á götur landsins einhvern daginn, til að tryggja að menn virði stjórnarskrána og frelsi fólks." Á borðum og skiltum mótmælenda í Rio mátti meðal annars sjá slagorð, þar sem fólk veitti Bolsonaro umboð sitt til að virkja herinn til þessa verks.

Ungir Belgar helst til frekir til fjörsins

Í Brussel komu allt að 1.500 ungmenni saman í almenningsgarði og kröfðust frelsis til að hittast og skemmta sér. Samkvæmt frétt AFP var þó minnihluti þessa hóps virkur í mótmælunum og meirihlutinn aðallega mættur til að fylgjast með. Lögregla leysti gleðskapinn upp og gekk það að mestu átakalaust framan af. Þar kom þó að lögregla missti þolinmæðina og beitti bæði táragasi og háþrýstidælum til að leysa upp síðustu leifar útihátíðarinnar.

Lögregla fullyrðir að fólk hafi margoft verið varað við því að þetta gæti gerst, færi það ekki að tilmælum um að hverfa á brott. Fréttamenn AFP-fréttastofunnar á vettvangi segjast hins vegar ekki hafa heyrt neinar slíkar tilkynningar eða viðvaranir, heldur hafi lögregla gripið til þessara harkalegu úrræða fyrirvaralaust. Samkvæmt tilkynningu borgarstjóraembættisins voru 15 handtekin í aðgerðunum. 

Mjög verður slakað á samkomutakmörkunum í Belgíu næsta laugardag, 8. maí, og mega þá veitingastaðir, kaffihús og knæpur hefja starfsemi á ný og þjóna gestum sínum til borðs - utandyra.