Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rýna þarf betur í gögn til að átta sig á stöðu gossins

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni segir í samtali við fréttastofu að skyndilegrar breytingar hafi orðið vart í gosinu um klukkan eitt í nótt. Endurmeta á stærð hættusvæðisins í Geldingadölum eftir breytingarnar. Nú stíga kvikustrókarnir reglulega allt að 300 metra upp í loftið. 

„Við sjáum að skyndileg breyting varð á óróanum klukkan eitt í nótt. Skyndilega fer af stað púlserandi og taktföst virkni og óróinn féll og reis á tíu mínútna fresti,“ segir Kristín og að á sama tíma hafi sést breytt virkni á gasstrókunum í vefmyndavélum.

Strókarnir hafi vaxið skyndilega og náð áður óþekktum hæðum. Virkni í þeim hafi svo dottið niður inn á milli en Kristín segir þurfa að rýna betur í hvort kvikusamsetning eða kvikukerfið er að breytast að einhverju leyti.

Gera þurfi frekari mælingar til að kanna hvort gosið fari vaxandi eða minnkandi. Kanna þurfi rúmmálsbreytingu og hvort efnasamsetning sé að breytast og eins hvort það sem nú er að gerast hafi með breytt gasflæði að gera sem sé mögulegt.

Kristín segir strókana ná svo hátt í loft upp að gjóska þeytist lengra út frá þeim og berist lengri veg en áður hefur gerst. Því þurfi að stækka hættusvæðið auk þess sem einnig þurfi að taka tillit til vinds.

„Gjóska var að falla á göngufólk í dag, sem er óheppilegt og því þarf að endruskoða hættusvæðið.“ Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður sem var við gosstöðvarnar í dag staðfestir það.

Hún segir að göngufólki við gosstöðvarnar hafi verið brugðið síðdegis í dag þegar allt að þriggja sentimetra hraunmolum rigndi yfir. Björgunarsveitarmenn eru við gosstöðvarnar til að gæta þess að fólk fari ekki of nærri.