Mögulega að opnast ný sprunga í Geldingadölum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ætli það sé ekki bara að opnast ný sprunga. Við vitum voðalega lítið, við sáum þetta bara fyrst á vefmyndavélum sem almannavarnir eru með,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, sem stendur vaktina á Veðurstofunni. Þorvaldur Þórðarson prófessor segir líklegra að þetta sé sinubruni. Nú er búið að snúa vefmyndavél RÚV að svæðinu, mikinn reyk leggur upp úr hlíðinni vestanveðri í Geldingadölum.

En gæti þetta verið sinubruni? „Það gæti verið. Ég er ekki viss. Mér finnst þetta svolítið mikill reykur fyrir sinubruna. En ég veit ekki hvernig gróðurinn var akkúrat í þessari hlíð,“ segir Salóme jafnframt.

„Það eru pínu skiptar skoðanir, en okkur finnst líklegast að þetta sé ný opnun. Þetta er það langt frá hraunjaðrinum,“ segir Salóme.

Skiptar skoðanir á því hvað veldur reyknum

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði segir líklegast að þetta sé sinubruni. „Mér finnst ólíklegt að þetta sé ný sprunga,“ segir hann. Það er þurrt í veðri og norðaustanátt, vindurinn grípur sletturnar og hjálpar þeim að fara lengra frá gígunum,“ segir Þorvaldur.

„Það er ekki ráðlegt að fólk sé að labba þarna megin við. Ef hraunsletturnar fara svona langt,“ bætir hann við.

Í nótt færðist meiri kraftur í kvikustrókana og sprengjuviknin í þeim er sveiflukenndari. „Það er komin meiri sveifla í kvikustrókvirknina, hver svo sem ástæðan fyrir því er. Þá ná þeir sér mjög vel upp á milli, ná hæðum sem eru sennilega vel yfir 250 metrum. Þeir þeyta stórum kvikuslettum yfir hraunið í suðvestur hlíðinni,“ segir Þorvaldur.

Eldgosið við Fagradalsfjall sást vel frá höfuðborgarsvæðinu og víðar af suðvesturhornu í nótt. Hraun sem rennur úr gígnum og niður í Meradali náði í gærkvöld að teygja sig í og sameinast hraunbreiðu sem þar hlóðst upp skömmu eftir páska. 

Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við Þorvald.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV