Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gömul ávaxtadós í lykilhlutverki á rækjuveiðum

02.05.2021 - 11:31
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
Þeir Haraldur Ágúst Konráðsson og Barði Ingibjartsson eru á rækjuveiðum í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Þeir hafa róið saman í þrjú ár. Trollið er dregið eftir sjávarbotninum og áttatíu mínútum og nokkrum kaffibollum síðar dregur til tíðinda.

Fljótlega er fyrsta halið komið um borð, meira en heilt tonn af rækju í fyrsta kasti og hún lítur ágætlega út og þá tekur Barði prufu. „Ég er að taka prufu, talningarprufu,“ segir Barði, „til að staðfesta stærðina á rækjunni.“ Hann notar forláta ávaxtadós til prufunnar og miðar við að í dósinni séu fimm hundruð grömm og getur þannig áætlað hvað hann fær margar rækjur í kílóinu. „Ég vil hafa þær sem fæstar,“ segir Barði, og þeir Haraldur vilja hafa sem minnst af undirmálsrækju eða krilli. Sú rækja fer af kvótanum en fer sem hrat í gegnum verksmiðjuna og enginn fær greitt fyrir hana.
   
Fleiri tugir báta voru á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi á árum áður. Nú eru bátar orðnir stærri og kvóti verið sameinaður á báta og aðeins fjórir bátar eftir á rækjuveiðum í Djúpinu. Eftir níu ára rækjuveiðibann, sem lauk fyrir áratug, hefur svo verið miðað við helmingi minni rækjuveiðar en fyrir bann, - veiðivísitalan verið lækkuð. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður