Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gígurinn þeytir kviku 300 metra upp í loft

02.05.2021 - 13:12
Mynd: RÚV / RÚV
Töluverðar breytingar hafa orðið á gosvirkni í öflugasta gígnum í Geldingadölum en hann spúir nú háum kvikustrókum sem sjást vel af nær öllu suðvesturhorninu. Breyting varð á virkninni í gærkvöld og síðan hefur gosið orðið kaflaskiptara og þeytir kvikunni hærra upp í loftið en áður hefur sést.

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði segir að í augnablikinu virðist gosið vera mun sveiflukenndara en áður. 

„Það dettur niður virknin og yfirborð hraunkvikunnar sem er í gígnum virðist lækka samfara því að einhverju leiti. Og þá dregur líka aðeins úr hraunflæðinu, jafnvel stöðvast hraunflæði úr gígnum. Síðan rífur gosið sig upp með töluverðum krafti og myndar kvikustróka sem eru hærri en við höfum séð áður, sennilega um 300 metra háir. Þeir senda kvikuslettur töluvert langt frá gígnum. Sumar lenda í mosanum suðvestan við gíginn og hafa komið af stað sinueldi,“ segir Þorvaldur.

Hann segir ekki augljóst hvort að gosið sé í rénun eða sókn.

„En það sem er að gerast er að gasið sem er að sleppa úr kvikunni, það er ekki að streyma úr kvikunni eins jafnt eins og það hefur gert til þessa heldur virðist það koma með ákveðnum púlsum inn í kerfið og rífa sig svo upp. Það er eitthvað sem er að tefja gasuppstreymið í ákveðið tímabil og þá byggist upp þrýstingur og gosið nær að komast í gegnum þetta haft og mynda þessa stóru kvikustróka sem við erum að horfa á,“ segir Þorvaldur.

Hann segir ekki hægt að fullyrða hvort að nýtt gosop sé að opnast, en hann telji að það sé sinubruni frekar en nýtt gosop.

Otti Rafn Sigmarsson, félagi í björgunarsveitinni Þorbirni var við gosstöðvarnar í morgun. Hann segir magnað að heyra og sjá kvikustrókana í gígnum. Þar sem hann stóð þegar fréttastofa tók hann tali rétt fyrir tólf taldi hann sinubruna vera það sem veldur reyknum í hlíðinni.

„Þegar maður horfir hérna yfir nýja hraunið og þá er augljóst sinubruni eða mosabruni vestan við gosstöðvarnar sem maður sér sko. Þetta er mikill reykur og mikill gróður þarna og þetta virðist hafa náð einhverju flugi og brennt stóran hring þarna í hlíðina. Við vitum ekkert hvað er að gerast undir þessum sinubruna. núna brennur sina og það er ekki merki um neina kviku eða neitt, en svo veit maður ekki hvað gerist sko,“ segir Otti Rafn.

Hann segir þó nokkurn mannfjölda vera á staðnum, en ekkert í líkingu við það sem var í gærkvöldi þegar margir lögðu leið sína að eldgosinu. Það sé mikið sjónarspil að sjá kvikustrókinn stíga til himins.

„Já, þetta er svolítið magnað. Maður heyrir það rosalega vel þegar það slökknar í honum og svo er allt í einu eins og hann rífi sig í gang aftur með ægilegum látum, það er mjög flott að sjá þetta,“ segir Otti Rafn.