Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk hraðaði sér undan gjóskufalli

02.05.2021 - 19:55
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RUV
Miklar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Geldingadölum og kvikustróka ber við himin. Eldfjallafræðingur segir að breytingar í gasi í gígnum eða fyrirstaða, einhvers konar kverkaskítur, geti verið ástæðan. Fólk fór á hlaupum undan gjóskufalli við eldgosið í dag. Verið er að endurmeta hættusvæði í kringum gíginn.

Það var mikið sjónarspil í Geldingadölum í dag, margir lögðu leið sína þangað enda hafa ekki sést svo háir kvikustrókar þar áður. „Við erum að reyna að skilja þennan kverkaskít sem er kominn í hann. Ætli það sé ekki bara komið meira gas í hann. Það eru einhverjar annað hvort þrengingar eða pokar þarna niðri og líklega meira vatn í kvikunni,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.

Viðbragðsaðilar vinna nú að því að endurmeta stærð hættusvæðisins í kringum gíginn enda geta aðstæður breyst mjög hratt. Þegar fréttastofa var á gosstöðvunum í dag rigndi allt í einu mikilli gjósku yfir fólk. Eins til þriggja sentimetra hraunmolar dundu á fólkinu, sem var eðlilega brugðið. „Spýjurnar eru kröftugri, þá fara flygsurnar hærra upp í loft. Það þýðir væntanlega eins og þið urðuð vör við áðan, að þá fer að rigna sjóðheitri ösku. Það þarf ekki að vera voðalega þægilegt.“