Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Flest óhöpp verða þegar fólk fylgir ekki fyrirmælum

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Tveir voru fluttir frá gosstöðvunum við Fagradalsfjall í gærkvöld eftir að þeir fundu fyrir verkjum og óþægindum, líkast til af völdum gosmengunar. Báðir fengu hjálp björgunarsveitarfólks við að komast frá gosstöðvunum. 

Við gosstöðvarnar er hæg breytileg átt 3 til 8 metrar á sekúndu í dag. Því berst gasið þaðan í ýmsar áttir og gæti safnast fyrir nærri gosinu.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, segir að flest óhöpp á svæðinu verði vegna mengunar og vegna þess að fólk hlýði ekki fyrirmælum björgunarsveitarmanna. 

„Það var ekkert mikið af slysum en það kemur alltaf aðeins inn í. En mengunin snéri í óhagstæða átt í gær og lagði yfir gönguleiðir. Við fylgjumst vel með og erum með grímur og mæla. Vandamálið er að fólk tekur tilmælum okkar ekki vel en við erum að vinna í þeirra þágu, við erum að reyna að passa upp á þau.“

Bogi ítrekar viðvaranir þess efnis að fólk skuli ekki stíga á hraunið þótt það virðist vera kalt og storknað. Aldrei sé vitað hve mikill hiti leynist undir yfirborðinu.  

Fólk geti gleymt sér þegar það er komið að gosstöðvunum og stigið upp á hraunið eða reyni jafnvel að stytta sér leið yfir það. Það skyldi enginn gera að sögn Boga Adolfssonar.