Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Auka þarf skilning á því til hvers eftirlit sé ætlað

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Tryggvi Gunnarsson, sem lét af starfi Umboðsmanns Alþingis nú um mánaðamótin, segir skorta eftirlitsmenningu á Íslandi. Auka þurfi skilning á því til hvers eftirlit sé en áríðandi sé að öflugar stofnanir sinni því.

Tryggvi var gestur Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfri morgunsins en hann gengdi embættinu allt frá ársbyrjun 2000. Hann starfaði áður sem sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns og var nátengdur embættinu frá upphafi.

Hann segir Íslendinga vera meðvitaða um rétt sinn, á ákveðin réttindavakning hafi orðið í landinu á árunum 1993 til 1995, með nýjum stjórnsýslulögum. „Þarna voru skráðar reglur um það hvernig stjórnsýslan á að hegða sér.“

Í kjölfarið hafi verið bætt við mannréttindaákvæðum stjórnarskrár, ekki síst fyrir tilstilli þáverandi Umboðsmanns, Gauks Jörundssonar. Þá segir Tryggvi að hafi oðið gjörbreyting á viðhorfi fólks. Þó sé alltaf hægt að gera betur í upplýsa fólk um rétt sinn. 

Tryggvi segist sannfærður um vilji stjórnsýslunnar sé að gera hlutina rétt í langflestum tilfellum. Embætti Umboðsmanns eigi ekki að vera stórt, stjórnsýslan sé til þjónustu fyrir borgara og mikilvægt sé að kerfið virki.

Bæta þurfi úr beri eitthvað út af og hjá embætti umboðsmanns sé til þekking sem geti nýst stjórnsýslunni og þinginu við það. Hann segir vaxandi alþjóðlegar kröfur vera til stjórnsýslunnar um að eftirlit sé haft með henni. 

Það sé óþægilegt fyrir þá sem hafa ráðið, stjórnmálamennina og fyrirsvarsmenns atvinnulífsins en stofnanir þurfa að hafa eðlilegt rými. Tryggvi kveður vandmeðfarið að hafa eftirlitsheimildir og sá sem hefur eftirlit þarf að skilja út á hvað málið gangi.

„Viðfangsefnið er að ná fram umbótum og fari eitthvað úrskeiðis þarf að vera möguleiki til þess. Það vantar eftirlitsmenningu á Íslandi, auka þarf skilning á til hvers vegna eftirlitið er og átta sig á það er til að þjóna almenningi.“

Tryggvi segir áríðandi að eftirlitsstofnanir séu öflugar, til að mynda svo unnt sé að mæla hvort eitthvað er að fara úrskeiðis, meðal annars í fjármálakerfinu.

„Það er í nútíma samfélögum viðurkennt og mjög mikilvægt að hafa öflugar stofnanir að því er varðar fjármálaeftirlit, samkeppniseftirlit, persónuvernd, fjarskipti og annað.“

Allt það sem illa fari bitni á almenningi, segir Tryggvi.

„Viðfangsefnin eru þess eðlis að fyrirtækin geta ekki ein og sér passað upp á þetta. Í fjármálakerfinu er að gerast þannig hreyfingar og hræringar að það þarf öflugt eftirlitskerfi til að passa upp á ákveðin grunnatriði í því.“